sunnudagur, 24. maí 2015

G L E Y M I N

Síðastliðinar 2 vikur hafa verið frábærar. 
Ég fékk geggjaðan vinkonuhitting, fékk að knúsa systir mína, fór í yndislega sveitaferð, átti frábæran afmælisdag og til að toppa alltsaman er ég komin á krókinn í mömmukot og fæ að kremja allt elskulega fólkið (og dýrin) sem ég á hér.

En illa forritaði heilinn minn áttar sig stundum ekki alveg á því hvernig á að forgangsraða. 
Í stað þess að njóta alls þess sem ég á og upplifi er ég búin að vera föst í einhverjum sjálfsvorkunnargír. 

Það er nefnilega þannig, að fyrir afmælið mitt þann 20 maí, ætlaði ég að vera búin að missa 20 kíló. Þetta var bara eitthvað formsatriði, hafa eitthvað til að stefna að og klára. Ég náði ekki þessu markmiði. Upphaflega áttu þau náttúrulega að vera 27, en ég sá ekki fram á að klára það svo ég setti upp nýtt plan.

Æji aumingja Guðdís... Hún er bara búin að missa 19 kíló. Angaskinnið. 

Cry my a river...

Frá upphafi ætlaði ég alltaf að skrá niður árangurinn og birta hann á þessari bloggsíðu. En ég hef ekki ennþá haft kjarkinn í það. Svo mikil er skömmin. 
Ég skammast mín fyrir það hvað ég er þung. Ég skammast mín fyrir það hvernig ég lít út.
En mest skammast ég mín fyrir það, að skammast mín fyrir sjálfa mig. 

Förum aðeins aftur í tímann. 
Nánar tiltekið október 2014. 
Ég er stödd á Sauðárkróki. Stuttu fyrir þetta upplifði ég eitthvað sem ég hafði ekki gert lengi, og hélt að myndi ekki gerast. Það kom aftan að mér. Mér var mismunað fyrir það hvernig ég leit út. 
Síðan þá hafði ég verið djúpt hugsi. Ég vissi að ég þurfi að grípa í taumana, en ég vildi líka passa að það væri gert á réttan hátt. Ekki eins og áður. Ekki af sömu ástæðum og áður og ekki með sömu aðferðum. Því sagan sýndi að það var ekki að fara að virka. 
Ok. Hér erum við á Sauðárkróki. Mér líður ömurlega. Ég er þreytt. Ég get ekki horft á sjálfa mig í spegli. Mér er illt í fótunum þó ég sé varla búin að standa á lappir í dag. En ég sýni það ekki. Feika það bara. 
Öll vinnan sem var búin að fara í það að sætta mig við sjálfa mig eins og ég er, var eiginlega bara horfin. Hvernig er hægt að sætta sig við "þetta". Niðurbrotin og með brenglaða sjálfsmynd í þokkabót. Ég minnist þess að ég hataði, já hataði, þegar fólk kallaði mig andlitsfríða þegar ég var krakki/unglingur. Fæ meira að segja hroll enn þann dag í dag þegar ég heyri þetta orð. Ég veit að þetta var vel meint. En það sem ég heyrði var "Hún Guðdís er svo andlitsfríð, en allt annað er ljótt". Og ég sá ekkert nema pínulitlar túttur og bumbu sem heilsaði mér þegar ég leit niður á tásur. Fallegt andlit, en ljótur líkami var það sem ég sá. Og geri enn. 
Ég geng inná baðherbergi hjá mömmu og lít í spegilinn. Ég er óvenju peppuð og tilbúin í sjokkið. Ég vissi alveg að það væri von á því. Ég hef ekki stigið á vigt í rúmlega ár og ég veit. Ég finn að ég er búin að bæta mikið á mig. Mikið. Ég beyji mig niður og dreg vigtina undan baðskápnum. Ég get þetta, ég get þetta, ég get þetta! 
Ég bókstaflega hvítna í framan!
Mig grunaði þetta ekki einu sinni. 
Þarna birtist hún. Þessi ógurlega tala sem ég óttast svo. 

127 kíló. 

Ég skelf þegar ég skrifa hana og les. 

Ég er svo hrædd núna. 

Ég er svo hrædd því að ég er búin að vera stopp í ca 1,5 mánuð.
Ég er svo ótrúlega hrædd um að talan hækki aftur. 
Ég er svo hrædd um að verða aftur þessu óhamingjusama stelpa.

Mér er nefnilega búið að ganga vel og ég er búin að vera hamingjusöm. Það er eins og ég bíði eftir skellinum. Bráðum verður allt eins og það var. Þú munt aldrei ná markmiðunum þínum og verður ekki glöð til frambúðar. 

Það sem mig vantar er: STEIN-FOKKING-ÞEGIÐU Guðdís María! 

Hættu þessu anskotans væli og girtu þig. 
Þú átt skilið að vera glöð.
Þú átt skilið að elska sjálfa þig og vera elskuð. 
Þú munt ná markmiðunum þínum og getur gert nákvæmlega allt sem þú vilt. 

Svona peppræða er eitthvað sem ég þarf frá sjálfri mér á hverjum degi. En því miður er ég ekki búin að vera til staðar fyrir sjálfa mig. Það er búið að vera mikið að gera og margt að hugsa, svo ég gleymdi mér. Núna ætla ég að gefa mér athygli og tíma og væntumþykju til að klára þetta! 

Hérna sit ég núna, í Maí 2015. 108 kíló. Ennþá drulluhrædd við þessa skíta vigt. Ennþá drulluhrædd við að týna mér aftur. Ennþá drulluhrædd við að leyfa öllum að sjá hvað ég er þung. 
En það er víst ekki pláss fyrri framfarir ef maður er sífellt hræddur. Út fyrir þægindaramman once again.

 #igotthis

Ekki gleyma sjálfri/sjálfum þér.

Takk fyrir að lesa, 

Ykkar, 
Guðdís