Söguna um naglasúpuna hafa væntanlega flestir heyrt. Og eflaust eiga flestir sína eigin útgáfu af naglasúpu. Á mínu heimili hefur hún oftast verið kölluð "tiltekt í ísskápnum súpa".
Eftir kvöldið í kvöld hinsvegar mun hún alltaf vera kölluð naglasúpa.
Ég hef yfirleitt verið frekar djörf í eldhúsinu (if you know what I mean ;) ). Hef verið óhrædd að prófa nýja hluti, blanda saman hráefnum sem engum myndi annars detta í hug svo að fólk hryllir sig og grettir - þar til það smakkar að sjálfsögðu.
Ég hef nefnilega líka verið frekar kærulaus þegar ég er að handleika hnífa og finnst yfirleitt ekkert tiltökumál að skera mig aðeins, enda er ég alltaf á hraðferð þegar ég er að elda og má engan tíma missa. En oftast eru það bara smáskurðir sem má gjarnan laga með ice age plástri.
Í dag var ég að undirbúa þessa dýrindis naglasúpu. Kjúklingurinn var aðeins að malla og ég var búin að skera niður það sem næst átti að fara út í missti mig svo aðeins í kokkatöktunum þegar ég var að skera niður selleríið. Þið vitið hvernig þetta er, hnífurinn á fullu og maður einbeitir sér að því að passa puttana og í leiðinni að ímynda sér að þessir hæfileikar kæmu manni léttilega í gegnum prufur í masterchef eða hells kitchen.
En nei! Ég æpi "mother fucker" og átta mig á því að þarna var hún lent á brettinu. Nöglin sem vantaði í naglasúpuna - ásamt ponsubita af putta.
Þá var bara að hendast upp á spítala í umbúðir og halda eldamennskunni áfram.
Eftir spítalaheimsóknina tók mamma ekki í mál að ég héldi áfram, greip sleifar og hnífa og ég mátti skipa fyrir (einhverntímann er allt fyrst).
En ef svo heppilega vill til að þið séuð ekki búin að missa matarlistina þá fylgir hér uppskrift af naglasúpu kvöldsins mínus naglar og neglur auðvitað.
3 kjúklingabringur
2 laukar
3-4 hvítlauksrif
1 chilipipar
1 sellerístilkur
1/2 - 1 sæt kartafla
4 niðurskornir tómatar - vel þroskaðir
Slatti brokkolí
1 grænmetisteningur
1 kjúklingateningur
1 nautateningur
ca líter af vatni.
1 lítil dós af kókosmjólk
austurlensk kryddblanda
salt og pipar
chilipipar
maukað chili til að bragðbæta - má líka nota sweet chili sósu
2-4 msk cous cous
Kjúklingabringur skornar niður í litla bita og steiktar á pönnu með salti, pipar og chilipipar. Í pott ásamt olíu set ég laukinn, hvítlauk, chili og sellerí. Þegar það hefur mallað aðeins bæti ég útí tómötum ásamt vatni og krafti. Síðan er það brokkolí og sæt karftafla, skorið í bita og allt látið malla í ca 20-30 mín. ca þar til sæta kartaflan er alveg tilbúin. Þá hendi ég couscous-inu útí og malla í smá stund í viðbót. Súpan er síðan bragðbætt með salti og pipar ásamt chilimauki eftir smekk. Um að gera að bæta meiri krafti í hana ef það vantar smá power. Ég notaði kryddblöndu sem heitir arabískt kjúklingakrydd frá pottagöldum til að bragðbæta. Annars mæli ég með austurlenskum kryddum eins og kóríander, cumin, túrmeric, engifer, karry ofl. allt eftir smekk. Kókosmjólkin er síðan sett í alveg í endann, rétt áður en súpan er borin fram.
NAMMI! Ekkert betra en að gúffa í sig girnilegustu súpu heims þegar maður er lítill í sér.
Þá er bara að halda áfram að njóta og fara að öllu með gát.
Ég mæli ekki með því að leika þetta eftir.
Ég sé alveg fram á að þurfa ekki að vaska upp í nokkra daga sem hentar mér ágætlega - en dýrt að greiða fyrir það með elsku puttanum mínum.
Þangað til næst :)