Þetta fína blogg skrifaði ég á sunnudaginn. Það eina sem ég átti eftir að gera var að henda inn myndunum og poste-a. En fór sem fór. Ég gleymdi því, og svo nennti ég ekki og síðan gleymdi ég því aftur. En í ljósi þess að skólanum lauk snemma í kvöld og 2 heilir klukkutímar bættust við daginn minn, þá auðvitað smelli ég í 1000 orða inngang líka.
Ég tók fram í síðasta bloggi að eina sætan sem ég leyfi mér þegar kemur að svona hollustudrullumalli er hunang. En ég á eina sjúklega góða vinnuvinkonu sem benti mér á sukrin. (Takk Þóra). Eftir að hafa lesið mér til um sukrin, sá ég bara ekkert að vandbúnaði og skellti mér á 1 poka. Næst þegar ég geri sælgætistilraunir verður sukrin í aðalhlutverki. Ég mæli með því að þið lesið ykkur til um þetta ágæta sætuefni og áhrif (eða ekki áhrif) á líkamann vs. sykur eða aðrar sætur.
En nóg um það. Snúum okkur að namminu!
Sælgætisgerð sunnudagsins fór vægast sagt fram úr væntingum.
Þegar ég er að brasa með svona hollustuhráefni þá á ég það til að gera ekki miklar væntingar til útkomunnar. Sem ég skil ekki, því í 98% tilfella er þetta gúrmeistöff sem ég hendi yfirleitt í kjamman á mér á ca 0,1 sek.
First thing´s first!
Eins og þú ert mögulega búin að gera þér grein fyrir þá er ég hætt að borða sykur. Og þess vegna leita ég allra mögulegra leiða til að gera matinn minn betri en hann er. Einn liður í því er að finna eitthvað sætt, sem ég get borðað með hreinni samvisku.
Leyfið mér að kynna:
Döðlukaramella!
Þið skiljið ekki hvað þetta er mikil snilld!
Þetta get ég notað í hvað sem er. Ofan á poppxex, í skyrið eða hafragrautinn, sem sætu í allskonar góðgæti - sem er akkúrat það sem ég gerði á sunnudaginn. Ég notaði döðlukaramellu í staðinn fyrir sykur :)
Þar sem ég er ekki sú þolinmóðasta, þá nennti ég ekki að láta döðlurnar liggja í bleyti í marga klukkutíma. Ég tók því til minna ráða og henti þeim í pott.
Þetta er svona einfalt:
100 gr Döðlur
1 vanillustöng
Smá salt
Döðlunum er hent í pott og vatni hent yfir þær - vatnið á bara að fljóta jafnhátt og döðlurnar.
Leyfðu þeim að sjóða í smá stund og hrærðu á meðan.
Eftir skamma stund fara þær að maukast og vatnið sýður upp og úr verður einhverskonar döðlugrautur. Þá er pottinum kippt af hellunni og vanillu úr einni stöng er blandað saman við ásamt smá salti.
Þegar grauturinn hefur kólnað smá stund, henti ég þessu í matvinnsluvél til að fá þetta silkimjúkt og gordjöss.
Svo setti ég þetta í svona fína krukku og voila - geymist í einhverjar vikur í ísskáp!
Og þá er það snilld númer 2.
Frá því að ég byrjaði að brasa með hollustunammi, þá hefur mig dreymt um hollustuútgáfu af bounty. Ekki bara einhverjar kókoskúlur sem eru ekkert eins og bounty, heldur eitthvað sem svalar raunverulegri bountyþörf!
Og sjáið hér! Þær urðu til. Og þó ég segji sjálf frá - þá eru þær dýrðlegar.
Byrjum á fyllingunni:
100 gr, kókosmjöl
65 gr. hakkaðar möndlur (setti bara heilar möndlur í matvinnsluvél, þá færðu hýðið og allt með)
3-4 msk kókosolía
4-5 msk döðlukaramella.
Ég byrja á því að blanda saman þurrefnum. Síðan bræði ég kókosolíuna yfir volgu vatnsbaði og blanda döðlukaramellunni saman við, eins mikið og hægt er þar sem þetta blandast ekkert sérlega vel saman. Eftir að búið er að sameina öll hráefni bý ég bara til kúlur eða stangir eða hvað sem mig langar og hendi í ísskáp á meðan ég bý til súkkulaðið - já ég sagði BÝ TIL súkkulaðið.
Ég nefnilega fjárfesti í kakósmjöri í innkaupaferð sunnudagsins.
Hérna kemur súkkulaðiuppskriftin:
70 gr. kakósmjör (cacao butter)
70 gr. kókosolía
4-5 msk kakó - mér finnst 5 fullkomið. Smekksatriði.
30-50 gr hunang - alveg smekksatriði líka. Bara smakka blönduna til.
2 msk rjómi
smá salt.
Hérna byrja ég á því að bræða saman kókosolíuna og kakósmjörið yfir volgu vatnsbaði þar sem hvor tveggja bráðnar við mjög lágt hitastig. Því næst set ég kakóið úti og hræri þar til kekkjalaust og svo er að demba hunanginu útí ásamt smá saltklípu. Rjómann set ég svo útí í bláendann, rétt áður en ég húða kókosbitana. Rjóminn þykkir súkkulaðið svo það þekur betur bitanna. En aftur á móti er nauðsynlegt að geyma þetta súkkulaði í kæli/frysti þar sem það verður mjög mjúkt við stofuhita.
Restina af súkkulaðinu smellti ég svo í konfektmót sem ég átti svo ég á líka fullkomna súkkulaðimola með kaffinu.
Nammigrísinn er sko ekki lagstur í dvala þó sykurinn sé ekki lengur valkostur. Ég finn bara aðrar leiðir ;)
Ég vona að þið prófið og njótið :)
-Guðdís