Tilvistakreppa...
Ég kýs að kalla það.... endurskoðun...
Já, endurskoðun.
Árið 2014 er búið að fara í eina heljarinnar endurskoðun.
Ástæðan fyrir þessarri langloku er að mig langar til þess að þið skiljið hvaðan ég kem. Mig langar svo að fólk skilji að enginn er fullkominn. Mig langar svo að allir fái að vera bara eins og þeir eru, án þess að vera með áhyggjur af því hvað aðrir hugsa eða segja. En aðallega er ég að gera þetta fyrir mig.
Mín heitasta ósk er að þú hættir að bera þig alltaf saman við aðra þegar kemur að útliti, markmiðum og árangri. Ekki vera alltaf að reyna að gera annarra manna besta. Þú getur bara gert þitt besta.
Sumarið 2013 greindist ég með kvíðaröskun. Ok... ég vissi alveg fyrir LÖNGU síðan að ég væri með kvíðaröskun. Ég er bara svo mikill töffari að ég hef alltaf bitið á jaxlinn. En sumarið 2013 hætti það að virka. Sem er mögulega það besta sem hefur komið fyrir mig. Því ég asnaðist loksins til þess að fá hjálp :) Og fór bara alltíeinu að líða vel í fysta skipti í mörg ár. Það var gaman. Erfitt, en gaman.
Það sem er svo gaman við þetta er að ég er búin að læra svo ofboðslega margt um sjálfa mig á þessu ári. Og ekki bara læra á sjálfa mig, heldur sætta mig við hver ég er. Innan og utan.
Ég tók áskorunum með opnum örmun, bæði í vinnu, skóla og svo er það stærsta áskorunin - ég sjálf.
Er ekki skrítið að lifa bara með sjálfum sér án þess að kynnast sér. Þú veist hvað þér finnst gott að borða, þú veist að þér finnst betra að setja ekki mýkingarefni þegar þú þværð handklæðin og þér finnst skemmtilegast að hlusta á house tónlist. Og þannig ert þú skilgreindur. Í einhvern svona hóp sem fólki finnst annaðhvort töff eða ekki. Og þannig dæmir þú fólk. Hefur bara alltaf verið þannig einhvernveginn. Svona grunnt.
Útlitskröfurnar eru eitthvað sem ég nenni varla að fara útí.
Ég stend sjálfa mig ennþá að því að fá hnút í magann ef ókunnugt fólk í kringum mig hlær að einhverju sem ég heyri ekki - því ég held að þau séu að hlæja að mér. Ég hef ekki farið í sund síðan ég var í 10.bekk því ég er með mjög óheilbrigða fóbíu fyrir almenningssturtuklefum og sundfötum.
Ef einhver hrósar mér fyrir útlitið er ég nánast handviss um að viðkomandi sé að ljúga uppí opið geðið á mér. Þetta er sjúklegt í rauninni. (Fer samt batnandi!)
Ég ímynda mér að fólk horfi á mig sem einhverskonar Pollýönnu. Því ég jú, á það til að horfa á björtu hliðarnar. Mér finnst lífið betra þannig. En þegar einhver hrósar mér fyrir jákvæðnina, er ég ekki lengi að vippa mér í sjálfseyðingarbuxurnar og hugsa "ef hún/hann bara vissi hvað ég er mikill fýlupúki í alvörunni". Já þessar sjálfseyðingarbuxur eru það leiðinlegasta sem ég á. En þær eru partur af mér for sure. Ég er svona að vinna í því að stytta þær aðeins. Verða vonandi bráðum orðnar að efnislitlum sjálfseyðingarnærbuxum.
Ég hef áttað mig á því hvað það er mikilvægt að vera hreinskilinn við sjálfan sig og aðra. Því þá fyrst er hægt að laga hlutina. Þú lagar ekki neitt ef þú ert í afneitun - svo mikið er víst.
Ég hef þurft að að viðurkenna alla mína bresti og er að læra að lifa með þeim, sem part af mér. Því brestirnir eru vissulega partur af mér þó þeir skilgreini mig ekki.
Ég er með kvíðaröskun, en ég er ekki kvíðaröskun. Ég er með átröskun, en ég er ekki átröskun.
Sigrarnir á árinu 2014 hafa verið bæði litlir og stórir en það er klárt mál að litlu sigrarnir gleðja mig mest. Að fara í flugvél án þess að eyða 2 vikum í kvíða fyrir ferðina. Að fara í lyftu án þess að fuðra upp í kvíðakasti í þessari nokkurra sekúntna rússíbanaferð. Að geta mætt í skólann í hvern einasta tíma án þess að hafa áhyggjur af nokkrum sköpuðum hlut. Þetta er frelsandi.
Það er einkennileg tilfinning að líka vel við sig. Ég klappa mér gjarnan á bakið þegar ég hef staðið mig vel, þó engum öðrum finnist það/taki eftir því.
Ef ég dett skyndilega í sjálfseyðingarbrækurnar þá stend ég fyrir framan spegilinn og ímynda mér að ég sé ekki að horfa á sjálfa mig heldur einhverja allt aðra manneskju. Hvað myndi ég segja við hana?
"Ég elska á þér hárið!", "Killer leggir!". mmmhm!
Árið 2015 ætla ég að koma fram við sjálfa mig af virðingu. Ég ætla að halda áfram að setja mér markmið. Ég ætla að halda áfram að vera besta útgáfan af sjálfri mér en fyrst og fremst ætla ég að rekja upp sjálfseyðingarbrækurnar spotta fyrir spotta, saum fyrir saum. Sama hversu langan tíma það tekur.
Væri ekki lífið leiðinlegt ef það væri til töfrapilla við öllu?
Þá þekktum við ekki hvað það er að sigrast á erfiðleikum eða ná markmiðum og tilfinninguna sem fylgir því. Ef við þekktum ekki sorg, myndum við þá þekkja gleði? Ef við þyrftum aldrei að vinna fyrir hlutunum þá þekktum við ekki þakklæti.
Ég vona að allir séu búnir að eiga dásamlega tíma um hátíðarnar.
Ég þakka ykkur öllum fyrir árið sem er að líða og óska þess að 2015 verði öllum frábært.
Takk fyrir að gefa ykkur tíma til þess að lesa.
Ég lofa að næsta bloggi fylgir uppskrift!
-Guðdís
Engin ummæli:
Skrifa ummæli