þriðjudagur, 2. desember 2014

Sörubakstur

Ég hef 2. sinnum á ævinni reynt að bara sörur. Bæði skiptin vöktu fram óþolinmóðu og reiðu Guðdísi - en ég kann ekkert sérstaklega vel við hana. Fallandi botnar, lekandi krem og viðbrennt súkkulaði er mér ekkert sérstaklega vel að skapi.

Þrátt fyrir fyrri reynslu af sörubakstri, ákveð ég að gera eina tilraun til viðbótar og í þetta sinn skulu þær vera sykurlausar. Já, ég veit ég er ekki alveg að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur. En þvert á móti spám um enn eitt katastrófískt sörubræðiskast varð útkoman heldur betur gleðileg.
Það tókst - og það tókst frábærlega.

Ég veit að ef ég spyr ykkur - já eða hvern sem er, hver besti partur sörunnar er þá er svarið í 95% tilfella auðvitað kremið! KREMIÐ KREMIÐ KREMIÐ! Sem er helsta ástæða þess að ég smellti mér í tilraun 2. Ég vildi hafa kremið fullkomið :)
Ég var mjög glöð með fyrri tilraunina, en að sjálfsögðu stefni ég alltaf á fullkomnun! ;)
Að mínu mati tókst það afburðarvel og sörurnar eru vægast sagt góðar.

Eigum við kannski að byrja bara?

Já, það getur verið bras að baka sörur - ég var mjög hissa á því hvað þetta gekk áfallalaust fyrir sig.

Byrjum á botninum:
Sjúklega flöffí

3 Eggjahvítur
35 gr Venjulegt Sukrin
20 gr, Sukrin Melis
1 - 2 msk Hunang
1 tsk Cream of tartar
200 gr Hakkaðar möndlur
vanilludropar

Hérna byrja ég á því að þeyta saman egg og sukrin ásamt vanilludropum og cream of tartar. Þetta er síðan þeytt í drasl eða þar til marengsinn er orðinn svo léttur að hann fer að svífa. Þegar þetta er orðið eins vel þeytt og hægt er þá bæti ég hunanginu útí á meðan ég held áfram að þeyta. Möndlurnar eru síðan settar í matvinnsluvél og hakkaðar í ákjósanlega stærð/áferð. Síðan bætum við möndluhakkinu útí með sleif.
Þessir skvettuhæfileikar eru öfundsverðir


Þá er bara að skvetta/sprauta í doppur á plötu. Ég sletti þessu bara með skeið en það er enginn vafi á því að þær verða fallegri og meðfærilegri að setja á ef þeim er sprautað vandlega á plötuna. Ég hugsa að sprautan verði fyrir valinu í næstu uppskrift. Þessar fara svo inní 150°C heitan ofn í 20-25 mín - fer eftir því hvað þú gerir þær stórar. (Blástur, já takk).









Nú! Á meðan botnarnir bakast er alveg tilvalið að henda í kremið.

4 Eggjarauður
vanilludropar
50 gr Hunang
50 gr Döðlusíróp
1 msk Kakó
1 msk Vatn
150 gr. Smjör/smjörlíki

Við byrjum á því að þeyta eggjarauðurnar og vanilluna saman SJÚKLEGA VEL og alveg fullt lengi.
Á meðan vélin er að vinna þá setjum við í pott hunangið, döðlusírópið, vatnið og kakóið og hrærum þar til fer að malla. Þá leyfum við blöndunni að kólna smá stund og hellum henni síðan útí eggjatryllingin í mjórri buni á meðan hann heldur áfram að þeyta. Þegar þetta er búið bætum við smjörinu útí og höldum áfram að hræra þar til þetta er orðið silkimjúkt! Síðan er bara að henda kreminu í kæli þar til þú setur það á kökurnar.
ÞETTA KREM!


Svo þegar botnarnir eru bakaðir og búnir að kólna almennilega, (ekki einu sinni reyna að svindla hérna - það þarf 100% þolinmæði í að bíða, ég veit en það er þess virði) semsagt almennilega má dúndra kreminu á og skella þeim í kæli aðeins lengur áður en súkkulaðið fær að vera með.

Hérna stendur þú svo frami fyrir mikilvægri ákværðun. Ætlar þú að bræða súkkulaði eða ætlar þú að búa til súkkulaði?

Gettu hvað!? Ég bjó til súkkulaði.

Svo alveg að verða tilbúið!

   
Hér er uppskriftin: 

50 gr. kakósmjör
50 gr. smjör/smjörlíki
3 msk kakó
1 msk döðlusíróp
1 msk hunang
3 dropar dark chocolate stevia
1 msk rjómi
1/2 tsk Xanthan gum  

Hér er kakósmjör og smjör brætt saman þar til uppleyst og svo er restinni bætt útí í engri sérstarkri röð. Þá er bara að dýfa sörunum í súkkulaðið og henda í ísskápinn einu sinni enn þar til súkkulaðið er storknað. 
VOILA!



Verði ykkur að góðu! 
-Guðdís


Engin ummæli:

Skrifa ummæli