Þrátt fyrir tíðindalítinn janúar finnst mér ég hafa frá svo mörgu að segja.
Sem er eiginlega ástæðan fyrir því að ég er ekki búin að blogga í nokkrar vikur.
Mig langar að tala um svo margt, koma svo mörgu frá mér að ég guggna bara við tilhugsunina um það að setjast niður og skrifa. Þessvegna vona ég að þið sýnið þessari færslu mikinn skilning, hún gæti mögulega endað í einhverjum tilfinningalegum hrærigraut.
Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að bloggi dagsins fylgir ekki bara uppskrift, heldur uppskriftIR!
En fyrst þetta!
Það er er svo ótrúlega snúið að reyna að einbeita sér EKKI að kílóatölunni. Í 4 vikur núna er ég búin að vera stopp á vigtinni og það er að gera mig brjálaða. En aftur á móti er ég afskaplega þakklát fyrir það að hafa undirbúið sjálfa mig undir þetta fyrsta stopp.
Í 3 mánuði sveif ég um á bleiku skýi þar sem kílóin eru bókstaflega búin að hrynja af mér. 13 kíló á rúmum 3 mánuðum er eitthvað sem mig óraði ekki fyrir. Og ég tek fram að þetta er eingöngu breyting á mataræði. Núna í 3 vikur er ég búin að bíða eftir bara 1 kílói í viðbót - þá verð ég glöð.
Vegna þess að eftir þetta eina kíló í viðbót er ég meira en hálfnuð með markmiðið mitt. Fyrir 20. maí nk. ætla ég nefnilega að vera búin að missa 27 kíló. Ég er að átta mig á því að ég er núna fyrst að detta í erfiða kaflann. Þetta eru kíló sem ég er búin að halda svolítið lengi í. Ég veit þeim þykir vænt um mig og mér þykir vænt um þau og þá er erfitt að sleppa.
Árið 2014 áttaði ég mig á því að það sem ég óttast mest er sennilega að sleppa björgunarhringnum. Ég er búin að dúða mig upp í einhvern öryggisgalla sem verndar mig frá öllu illu. Hvað gerist ef ég verð svo bara grönn?? Verð alltíeinu sátt í eigin skinni. Og hvað þá? Þrátt fyrir að vera minn heitasti draumur, skelfir það mig svo óhugsanlega mikið. Af mörgum ástæðum.
Ekki misskilja mig, ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að ég verð ekki hamingjusöm ef ég verð grönn - þetta er svo miklu stærra en það. Ég hef barist fyrir því í mörg ár núna að læra að meta sjálfa mig. Elska allan pakkann! Fýlupúkann og bumbuna líka!
Markmiðið mitt er heldur alls ekki að verða grönn. Markmiðið er að líða vel, vera heilbrigð og hraust. Bæði á líkama og sál.
Mig langar ekki að vera kokteill af lífsstílssjúkdómum þegar ég verð "stór".
Kannski kemur það ykkur á óvart hvað heldur mér við efnið.
Það sem gefur mér innblástur og keyrir mig áfram frekar en allt annað er fólk sem hefur komið upp að mér, hringt og sent mér skilaboð til að láta mig vita hversu mikil áhrif mitt ferðalag hefur haft á viðkomandi - til hins betra. Ég á ekki til orð sem lýsa því hvað það gleður mig mikið. Að fá að vera fyrirmynd eru forréttindi. Að fá að kenna í gegnum sína reynslu eru forréttindi. Að fá að vera stöðugt að læra eru forréttindi. Það er svo ótrúlega gott fyrir hjarta og sál að fá hrós.
Og þess vegna ætla ég ég ljúka þessari súpu með TAKK!
Takk fyrir að vera til staðar.
Takk fyrir að minna mig á og taka eftir því þegar ég stend mig vel.
Takk fyrir að vera manneskja sem lætur fólk vita hvers virði það er og lætur því líða vel.
Það er einn sá besti eiginleiki sem hægt er að búa yfir.
U P P S K R I F T A R T Í M I
Sunnudagsbaksturinn var gleðilegur! Þar sem ég er búin að liggja í flensu sl. 6 daga var þetta dásamleg tilbreyting. Tala nú ekki um þegar bragðlaukarnir eru búnir að liggja í dvala.
Þessi uppskrift er að vísu ekki mín eigin, - elskuleg móðir mín benti mér á hana,
en hana er að finna hérna: http://www.komduadborda.com/pekanterta-hveitis-og-sykurs/
Ég gerði aftur á móti örlitlar breytingar á kökunni.
Þar sem ég átti ekki Pecan hnetur ristaði ég heslihnetur og hakkaði til að setja ofan á kökuna og í karamelluna notaði ég döðlusíróp og hunang sem sætu.
Hún er LOSTÆTI
Hvað gerir maður svo þegar 5 eggjarauður eru afgangs?
EINMITT - býr til ís. Undursamlega dúnmjúkan sykurlausan súkkulaðiís!
SÚKKULAÐIÍS:
4 eggjarauður
1 egg
50 gr döðlusíróp
10 dropar better stevia súkkulaðidropar
400 ml rjómi
2 msk kakó
1 vanillustöng
Þeytum vel saman egg, eggjarauður og döðlusíróp ásamt vanillunni. Þeytum svo rjómann með kakóinu og stevíadropunum. Þegar hvor tveggja er orðið vel þeytt er þessu svo öllu blandað varlega saman með sleif, sett í box og inn í frysti í ca 8 klst eða þar til frosið.
Voila!
Listakonan skreytti síðan herlegheitin með kakónibbum :)
NAMM
Takk fyrir að lesa.
Njótið!
Ykkar - Guðdís
Engin ummæli:
Skrifa ummæli