Dagurinn í dag var undarlegur.
Hann var undarlegur að því leitinu til að ég fór í kjól í vinnuna, þeim sama og ég var í á myndinni sem ég birti á facebook í fyrradag.
Það er í sjálfu sér ekkert úr karakter fyrir mig að vera í kjól. Alls ekki. Ég er prinsessa.
En sko! Þegar ég fór í kjólinn fann ég fyrir einhverju sem ég hef ekki fundið fyrir í langan tíma. Og það var vottur af sjálfstrausti.
Já halló, ég er bara drulluflott í þessum kjól! Hvaða HAX skvísa er þetta?!
Hér kemur svolítið undarlegt, sem ég finn fyrir í hvert einasta skipti sem ég er nýklippt, í nýjum fötum eða ber einhverja breytingu utan á mér sem einhver mun mögulega taka eftir. Í stutta stund áður en ég labba inn um hurðina í vinnuna langar mig að hlaupa heim í önnur föt og flatbotna skó! Ég get þetta ekki. Hvað ef einhver tekur eftir því að ég er pæja í dag. Hvað ef einhver segir eitthvað. Hvað ef einhver hrósar mér...
Oh my.., Hvað ef einhver veitir mér athygli, það er eitthvað sem ég hef ofnæmi fyrir.
Og semsagt í dag, rigndi yfir mig hrósum. Pæjuna í hælunum og flotta kjólnum sem er svo fullkomlega sniðinn og flottur á mér að í hvert skipti sem ég sé spegil, þá stoppa ég og sný mér í einn hring.
Alla mína ævi hef ég gengið í of stórum fötum. Ég kaupi mér stórar peysur, of stóra kjóla og of stórar blússur svo að mallinn sé örugglega ekki áberandi. Allt skal hylja og helst vítt yfir brjósin líka svo það sjáist ekki hveru agnarsmáar jullurnar eru miðað við restina af líkamanum.
Hún elskulega móðir mín og vinkonur þekkja það manna best hversu erfitt er að fara með mér að versla. Það er hreint út sagt martröð. Það hentar mér satt best að segja best að fara bara ein að versla. Þá þarf enginn að verða vitni af þessum heimsenda sem dagurinn er þegar ekkert passar rétt. Tíminn sem það tekur að finna kannski mögulega eina flík sem nokkurn veginn stenst þær kröfur sem vaxtarlagið mitt setur. Því ég er náttúrulega öðruvísi en allir aðrir. Það skilur enginn hvað það er erfitt að vera ég sem fittar hvergi inní vaxtarkúrfu samfélagsins. Einmitt...
Eins og áður sagði þá er allt gert til að fela svo að enginn veiti útliti mínu sérstakan gaum. Þá get ég bara verið ein og óséð í sirkustjaldinu mínu og enginn veit hvað leynist þar undir.
En núna, þrátt fyrir að vera hvergi nærri komin í það form sem ég vil vera, fór ég í fína þrönga kjólinn og reyndi eftir fremsta megni að fara ekki í kleinu þegar mér var hrósað. Ég reyndi að ganga með höfuðið hátt og dilla rassinum svo að sjálf Nicki Minaj hefði fengið minnimáttarkennd.
Og þar með var enn einn sigurinn unnin í dag. Einn af þessum litlu sem skipta svo ótrúlega miklu máli. Og þar sjáið þið hvað lítið hrós getur skipt alveg ótrúlega miklu máli.
Ég verð auðmjúk og klökk þegar ég les komment við bloggfærslurnar og myndirnar sem ég hef sett inn. Ég á ekki orð yfir því hversu margir eru að fylgjast með og hafa áhuga á því sem ég er að rembast við. Ég er þakklát fyrir það að þetta blessaða ferðalag hafi núna enn meiri tilgang en það sem ég lagði upp með. Það er búið að gefa mér svo ótrúlega mikið.
En, nú er kominn tími á að setja ný markmið.
Upphaflega planið var að missa 27 kíló fyrir 20. maí nk.
Ég er búin að skafa af mér 18 svo það skilur eftir 9 stk. sem ég sé ekki alveg fram á að ná á næstu 23 dögum.
Nýtt plan er að missa 20 kíló fyrir 20. maí nk. og svo skulu 35 kíló vera farin í heildina eftir sumarið eða þann 1.september.
Með hverjum deginum fer kílóatalan að skipta minna og minna máli og alltaf verður það skýrara hvað það er sem raunverulega skiptir máli.
Ég er líka búin að setja mér margvísleg persónuleg markmið. Ég ætla ekki að fara neitt nánar útí þau núna fyrir utan það að ég ætla að vera duglegri að láta fólk vita hvað það skiptir mig máli. Þó ég þurfi að gera það með tárin í augunum og verði kannski svolítið óþægileg. Það verður bara að hafa það.
Maður getur ekki alltaf verið með allt í teskeið.
Ég er líka búin að reyna að koma frá mér einhverri klausu um ástina þar sem hún er búin að vera mér ofarlega í huga undanfarið. Þegar fer að vora þá fæ ég eitthvað svona kærókitl í magann og þrái ekkert heitar en að leiða draumaprinsinn niður laugarveginn. Við tekur örstutt veiðitímabil en einhverjum tímapunkti fer svo allt í baklás og veggirnir rísa í kringum mig eins og óklífanlegir kastalaturnar. Svo þykist prinsessan, sem situr ein í kastalaturninum vera blind og sér ekki prinsana sem standa niðri og veifa í veikri von, en á endanum gefast þeir upp. En þetta egg ætlar að reyna að troða sér út fyrir þægindaramann fyrr enn varir. "Sagði hún með sjálfandi og sveittar hendur".
Þetta var dimmt og djúpt í boði Guðdísar.
Takk kærlega fyrir að nenna mér.
Ykkar,
Guðdís
mánudagur, 27. apríl 2015
laugardagur, 11. apríl 2015
L E Y N D A R M Á L
Í morgun steig ég á vigtina. Mér til mikillar gleði ákvað hún að vera með
mér í liði í dag. 18 kíló farin! #igotthis
Ég er búin að byrja 5 sinnum á þessarri færslu. Aðallega afþví það er
eitthvað sem heldur aftur af mér. Eins og mig langi ekki að vera fullkomlega
hreinskilin. Mig langar svolítið að loka á allar tilfinningar, henda upp
grímunni og vera bara full sjálfstrausts.
Undanfarið hef ég verið ótrúlega mikið óþolinmóð og óörugg. Samt mest
óþolinmóð því mig langar að vera búin að missa 30 kíló en ekki 18. Ég var búin
að lofa sjálfri mér því að rífa batteríin úr vigtinni og fela þau svo ég sé
ekki að stíga á vigtina á hverjum einasta degi, en ég er ekki búin að því. Mér
líður eins og ég gæti misst tökin ef ég er ekki stanslaust á tánum. Sem er
svolítið sjúkt en bara nákvæmlega alveg satt.
Mér finnst líka ákveðið svindl að vera ekki full sjálfstrausts á hverjum
einasta degi. Vegna þess að ég er að sigra á hverjum einasta degi á einn eða
annan hátt, en það er eitthvað sem vantar uppá. Og ég næ því ekki alveg.
Brjóstkassinn er ennþá hálf loftlaus og herðarnar krepptar eins og ég sé að
bíða eftir höggi. Mér nefnilega líður eins og ég EIGI að vera mun peppaðari,
jákvæðari og kraftmeiri.
Ekki alltaf dans á rósum I guess.
Innst inni veit ég að þetta líður alveg hjá og með vorinu sem er blessunarlega
á leiðinni fyllist ég vonandi eldmóð og óbilandi krafti.
Það erfiðasta sem ég veit er að segja fólki hvernig mér líður. Yfirleitt
þegar umræður snúast að mínum tilfinningum þá breyti ég um umræðuefni eða reyni
að bauna úr mér óskiljanlegum setningum með tárin í augunum. Þá er ég ekki að
tala um bara hvernig ég hef það í dag eða hvort mér þyki vænt um systkini mín. er
þetta sem býr aðeins dýpra og er ekki öllum augljóst. Og þetta verkefni er það
erfiðasta sem ég hef tekið mér fyrir hendur en jafnframt svo ótrúlega
mikilvægt. Eftir því sem ég gref dýpra verður moksturinn erfiðari og það kemur
alltaf meira og meira í ljós að ég klára þetta ekki ein. Þetta hljómar kannski
full dramatískt fyrir marga en ég er að reyna að vera eins hreinskilin og ég sé
mér fært.
Ég er frábær predikari!
Ég er mjög fær í því að gefa fólki ráð, segja því hvað það á að
gera og hvað er óæskilegt. (Sumir myndu kannski kalla það stjórnsemi eða
frekju).
Ég er góð í því að sýna fólki hvað gefur
lífinu gildi og hvað það er mikilvægt að vera sannur sjálfum sér og bera
virðingu fyrir sjálfum sér og sínum tilfinningum.
Ég er líka mesti hræsnarinn. Ég geri lítið
úr eigin tilfinningum. Þær skipta ekki svo miklu máli. Ég hef jafnvel gengið
svo langt að særa fólk með því að segja ekki hug minn eða láta fólk ekki vita
hvað það skiptir mig í raun ofboðslega miklu máli. Ég elska ofboðslega fast en
held því oft fyrir mig af hræðslu við að vera ekki elskuð tilbaka. Þá er ég að
tala um í öllum samböndum. Fjölskylda, vinir, kunningjar og ástmenn.
Stundum langar mig að taka fólk
þéttingstaki og öskra í andlitið á þeim hvað þau skipta mig miklu máli. Hversu
mikið það er elskað. Hvað það er frábært og dýrmætt! Ég er bara hrædd um að ég
væri ekki jafn vinsæl ef ég færi að leggja það í vana minn.
Ég vona að þið skiljið út á hvað þessi bloggsíða gengur. Þetta
snýst um það að til þess að verða besta útgáfan af sjálfri mér þá þarf ég að
gera upp allskonar hluti sem halda aftur af mér. Þegar þessir hlutir eru svo
settir á almenningsbekk fyrir alla að sjá, þá hef ég ekkert að fela lengur.
Og hérna stend ég strípuð af öllu fölsku. Skíthrædd. En samt.. enn
einn sigurinn.
Takk fyrir að lesa.
Ykkar,
Guðdís
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)