Dagurinn í dag var undarlegur.
Hann var undarlegur að því leitinu til að ég fór í kjól í vinnuna, þeim sama og ég var í á myndinni sem ég birti á facebook í fyrradag.
Það er í sjálfu sér ekkert úr karakter fyrir mig að vera í kjól. Alls ekki. Ég er prinsessa.
En sko! Þegar ég fór í kjólinn fann ég fyrir einhverju sem ég hef ekki fundið fyrir í langan tíma. Og það var vottur af sjálfstrausti.
Já halló, ég er bara drulluflott í þessum kjól! Hvaða HAX skvísa er þetta?!
Hér kemur svolítið undarlegt, sem ég finn fyrir í hvert einasta skipti sem ég er nýklippt, í nýjum fötum eða ber einhverja breytingu utan á mér sem einhver mun mögulega taka eftir. Í stutta stund áður en ég labba inn um hurðina í vinnuna langar mig að hlaupa heim í önnur föt og flatbotna skó! Ég get þetta ekki. Hvað ef einhver tekur eftir því að ég er pæja í dag. Hvað ef einhver segir eitthvað. Hvað ef einhver hrósar mér...
Oh my.., Hvað ef einhver veitir mér athygli, það er eitthvað sem ég hef ofnæmi fyrir.
Og semsagt í dag, rigndi yfir mig hrósum. Pæjuna í hælunum og flotta kjólnum sem er svo fullkomlega sniðinn og flottur á mér að í hvert skipti sem ég sé spegil, þá stoppa ég og sný mér í einn hring.
Alla mína ævi hef ég gengið í of stórum fötum. Ég kaupi mér stórar peysur, of stóra kjóla og of stórar blússur svo að mallinn sé örugglega ekki áberandi. Allt skal hylja og helst vítt yfir brjósin líka svo það sjáist ekki hveru agnarsmáar jullurnar eru miðað við restina af líkamanum.
Hún elskulega móðir mín og vinkonur þekkja það manna best hversu erfitt er að fara með mér að versla. Það er hreint út sagt martröð. Það hentar mér satt best að segja best að fara bara ein að versla. Þá þarf enginn að verða vitni af þessum heimsenda sem dagurinn er þegar ekkert passar rétt. Tíminn sem það tekur að finna kannski mögulega eina flík sem nokkurn veginn stenst þær kröfur sem vaxtarlagið mitt setur. Því ég er náttúrulega öðruvísi en allir aðrir. Það skilur enginn hvað það er erfitt að vera ég sem fittar hvergi inní vaxtarkúrfu samfélagsins. Einmitt...
Eins og áður sagði þá er allt gert til að fela svo að enginn veiti útliti mínu sérstakan gaum. Þá get ég bara verið ein og óséð í sirkustjaldinu mínu og enginn veit hvað leynist þar undir.
En núna, þrátt fyrir að vera hvergi nærri komin í það form sem ég vil vera, fór ég í fína þrönga kjólinn og reyndi eftir fremsta megni að fara ekki í kleinu þegar mér var hrósað. Ég reyndi að ganga með höfuðið hátt og dilla rassinum svo að sjálf Nicki Minaj hefði fengið minnimáttarkennd.
Og þar með var enn einn sigurinn unnin í dag. Einn af þessum litlu sem skipta svo ótrúlega miklu máli. Og þar sjáið þið hvað lítið hrós getur skipt alveg ótrúlega miklu máli.
Ég verð auðmjúk og klökk þegar ég les komment við bloggfærslurnar og myndirnar sem ég hef sett inn. Ég á ekki orð yfir því hversu margir eru að fylgjast með og hafa áhuga á því sem ég er að rembast við. Ég er þakklát fyrir það að þetta blessaða ferðalag hafi núna enn meiri tilgang en það sem ég lagði upp með. Það er búið að gefa mér svo ótrúlega mikið.
En, nú er kominn tími á að setja ný markmið.
Upphaflega planið var að missa 27 kíló fyrir 20. maí nk.
Ég er búin að skafa af mér 18 svo það skilur eftir 9 stk. sem ég sé ekki alveg fram á að ná á næstu 23 dögum.
Nýtt plan er að missa 20 kíló fyrir 20. maí nk. og svo skulu 35 kíló vera farin í heildina eftir sumarið eða þann 1.september.
Með hverjum deginum fer kílóatalan að skipta minna og minna máli og alltaf verður það skýrara hvað það er sem raunverulega skiptir máli.
Ég er líka búin að setja mér margvísleg persónuleg markmið. Ég ætla ekki að fara neitt nánar útí þau núna fyrir utan það að ég ætla að vera duglegri að láta fólk vita hvað það skiptir mig máli. Þó ég þurfi að gera það með tárin í augunum og verði kannski svolítið óþægileg. Það verður bara að hafa það.
Maður getur ekki alltaf verið með allt í teskeið.
Ég er líka búin að reyna að koma frá mér einhverri klausu um ástina þar sem hún er búin að vera mér ofarlega í huga undanfarið. Þegar fer að vora þá fæ ég eitthvað svona kærókitl í magann og þrái ekkert heitar en að leiða draumaprinsinn niður laugarveginn. Við tekur örstutt veiðitímabil en einhverjum tímapunkti fer svo allt í baklás og veggirnir rísa í kringum mig eins og óklífanlegir kastalaturnar. Svo þykist prinsessan, sem situr ein í kastalaturninum vera blind og sér ekki prinsana sem standa niðri og veifa í veikri von, en á endanum gefast þeir upp. En þetta egg ætlar að reyna að troða sér út fyrir þægindaramann fyrr enn varir. "Sagði hún með sjálfandi og sveittar hendur".
Þetta var dimmt og djúpt í boði Guðdísar.
Takk kærlega fyrir að nenna mér.
Ykkar,
Guðdís
Engin ummæli:
Skrifa ummæli