laugardagur, 11. apríl 2015

L E Y N D A R M Á L

Í morgun steig ég á vigtina. Mér til mikillar gleði ákvað hún að vera með mér í liði í dag. 18 kíló farin! #igotthis

Ég er búin að byrja 5 sinnum á þessarri færslu. Aðallega afþví það er eitthvað sem heldur aftur af mér. Eins og mig langi ekki að vera fullkomlega hreinskilin. Mig langar svolítið að loka á allar tilfinningar, henda upp grímunni og vera bara full sjálfstrausts.

Undanfarið hef ég verið ótrúlega mikið óþolinmóð og óörugg. Samt mest óþolinmóð því mig langar að vera búin að missa 30 kíló en ekki 18. Ég var búin að lofa sjálfri mér því að rífa batteríin úr vigtinni og fela þau svo ég sé ekki að stíga á vigtina á hverjum einasta degi, en ég er ekki búin að því. Mér líður eins og ég gæti misst tökin ef ég er ekki stanslaust á tánum. Sem er svolítið sjúkt en bara nákvæmlega alveg satt.

Mér finnst líka ákveðið svindl að vera ekki full sjálfstrausts á hverjum einasta degi. Vegna þess að ég er að sigra á hverjum einasta degi á einn eða annan hátt, en það er eitthvað sem vantar uppá. Og ég næ því ekki alveg. Brjóstkassinn er ennþá hálf loftlaus og herðarnar krepptar eins og ég sé að bíða eftir höggi. Mér nefnilega líður eins og ég EIGI að vera mun peppaðari, jákvæðari og kraftmeiri.

Ekki alltaf dans á rósum I guess.

Innst inni veit ég að þetta líður alveg hjá og með vorinu sem er blessunarlega á leiðinni fyllist ég vonandi eldmóð og óbilandi krafti.

Það erfiðasta sem ég veit er að segja fólki hvernig mér líður. Yfirleitt þegar umræður snúast að mínum tilfinningum þá breyti ég um umræðuefni eða reyni að bauna úr mér óskiljanlegum setningum með tárin í augunum. Þá er ég ekki að tala um bara hvernig ég hef það í dag eða hvort mér þyki vænt um systkini mín. er þetta sem býr aðeins dýpra og er ekki öllum augljóst. Og þetta verkefni er það erfiðasta sem ég hef tekið mér fyrir hendur en jafnframt svo ótrúlega mikilvægt. Eftir því sem ég gref dýpra verður moksturinn erfiðari og það kemur alltaf meira og meira í ljós að ég klára þetta ekki ein. Þetta hljómar kannski full dramatískt fyrir marga en ég er að reyna að vera eins hreinskilin og ég sé mér fært.

Ég er frábær predikari!

Ég er mjög fær í því að gefa fólki ráð, segja því hvað það á að gera og hvað er óæskilegt. (Sumir myndu kannski kalla það stjórnsemi eða frekju).
Ég er góð í því að sýna fólki hvað gefur lífinu gildi og hvað það er mikilvægt að vera sannur sjálfum sér og bera virðingu fyrir sjálfum sér og sínum tilfinningum.

Ég er líka mesti hræsnarinn. Ég geri lítið úr eigin tilfinningum. Þær skipta ekki svo miklu máli. Ég hef jafnvel gengið svo langt að særa fólk með því að segja ekki hug minn eða láta fólk ekki vita hvað það skiptir mig í raun ofboðslega miklu máli. Ég elska ofboðslega fast en held því oft fyrir mig af hræðslu við að vera ekki elskuð tilbaka. Þá er ég að tala um í öllum samböndum. Fjölskylda, vinir, kunningjar og ástmenn.

Stundum langar mig að taka fólk þéttingstaki og öskra í andlitið á þeim hvað þau skipta mig miklu máli. Hversu mikið það er elskað. Hvað það er frábært og dýrmætt! Ég er bara hrædd um að ég væri ekki jafn vinsæl ef ég færi að leggja það í vana minn.

Ég vona að þið skiljið út á hvað þessi bloggsíða gengur. Þetta snýst um það að til þess að verða besta útgáfan af sjálfri mér þá þarf ég að gera upp allskonar hluti sem halda aftur af mér. Þegar þessir hlutir eru svo settir á almenningsbekk fyrir alla að sjá, þá hef ég ekkert að fela lengur.

Og hérna stend ég strípuð af öllu fölsku. Skíthrædd. En samt.. enn einn sigurinn.

Takk fyrir að lesa.

Ykkar,

Guðdís

Engin ummæli:

Skrifa ummæli