föstudagur, 27. mars 2015

F E I T

Ég ætla að byrja á því að vara við því að orðið FEIT kemur ansi oft fyrir í þessum texta. Því ég nenni ekki að nota orð eins og yfirvigt, ofþyngd, stórbeinótt eða samskonar feimnisorð. Ekki nema þá alveg spari. Hver veit nema þið sjáið einhvern fjölbreytileika í lýsingarorðunum. 

Það er fátt meira ógnvekjandi en að vera nákvæmlega þú sjálf/ur.
Ekkert plat. Allir gallar, allt sem þér finnst óþæginlegt við að vera þú. Allt sem þér finnst óþolandi við að vera þú. Allt sem þú elskar við að vera þú og allt sem þér finnst skemmtilegt við að vera þú. Útlitið, sjarmurinn, húmorinn, skapskrímslið, frekjan og allt saman. 

Ég var búin að tala um það í einhverri færslu að aukafita er fyrir marga sem hana bera í óhófi ákveðið öryggi. Svona bómullarpakkning.

Mig langar aðeins að útskýra það frá mínu sjónarhorni. 

Ég hef verið feit frá því ca. ég man eftir mér. Ætli ég hafi ekki verið um 8 ára þegar ég man eftir því að hafa tekið eftir því/heyrt í fyrsta skipti að ég væri feit. Eða þið vitið... svona stærri en meðal barn er. Ég var nefnilega ekkert mikið feit. Ég var með svona hvolpafitu. 

Á hverju einasta ári kveið ég þessum degi. Daginum sem ég þurfti að fara til skólahjúkrunarfræðings. Ég tók sjónpróf, var spurð einhverra spurninga, við mælum hæðina og ýmislegt fleira. En svo var það vigtin. Svo var það helvítis fokkings vigtin. 

Alltaf var ég fyrir ofan normið á kúrvunni og alltaf talaði hjúkrunarfræðingurinn um það við mig á einhvern hátt sem maður á ekki að tala við barn um kílóatölu. Hún sýndi mér að ég var fyrir ofan normið, til að passa uppá að ég vissi nú alveg að ég var ekki venjuleg. Svona var þetta á hverju einasta ári. Á hverju ári bætti ég á mig einhverjum hvolpakílóum en ekkert hættulegt. Ég var chubby barn. Svo var ég chubby unglingur. Ég var ca 12-13 ára þegar skólahjúkrunarfræðingurinn gubbaði því úr sér eftir gott "fituspjall" við mig að ég yrði nú sennilega aldrei grönn. OG BAMM! Scarred for life! Það er nefnilega ekki erfitt að skemma hausinn á ungri konu. 
Uppúr þessu byrjaði ég að fitna fyrir alvöru og eineltið varð í kjölfarið svolítið alvöru líka. Reglulega fékk ég að heyra að ég var feit. Reglulega fékk ég að heyra að ég var ekki nógu góð á einhvern hátt. Ég fór í fyrstu megrunina mína 12 ára. Efnaskiptakúr landspítalans. Það var gúd sjitt. Borðaði ekkert í 2 vikur. En þið sjáið að frá því ég var unglingur var það stimplað inní hausinn á mér að ég er feit og verð aldrei mjó og þá er maður ekki venjuleg manneskja - heldur feit manneskja. 

Svo fór ég í megrun og bætti því öllu á mig aftur. Og svo fór ég aftur í megrun og sama sagan again og svo fór ég enn einu sinni í mergrun og voila - öll kílóin komin aftur. Það mesta sem ég náði að skafa af mér í einni af mínu frægu megrunum voru 9 kíló. Svona gekk þetta í rúmlega 10 ár. Þangað til ég ákvað að sætta mig bara við þetta. Ég gafst hvorteðer alltaf upp. Kannski langaði mig heldur ekkert að vera grönn. 

Hún hafði líklega rétt fyrir sér kerlingin. Ég verð aldrei mjó. Best að vera þá bara ánægð eins og ég er. Og upphófst heljarinnar verkefni. 

Það fyrsta sem ég gerði var að finna allskonar "body positive" fólk og hópa á samfélagsmiðlum. Og newsfeedið mitt fylltist af fólki sem var feitt og fabulous. Þarna voru model í stærðum 20 og uppúr sem rokkuðu hátísku og voru talskonur fyrir feitt fólk. Þarna voru líka allskonar síður sem einbeittu sér að mannréttindum og það að fólk megi bara vera eins og því fokkings sýnist án þes s að þurfa að fá á því leyfi frá tískublöðum. Þetta var ágætis heilaþvottur skal ég segja ykkur :) 

Það næsta sem ég gerði var að blása út. Ég fitnaði og fitnaði og fitnaði. Á tveimur árum bætti ég á mig 20 kílóum. Og ég bara leyfði því að gerast. Án þess að veita því gaum. Nú, ég á hvorteðer alltaf eftir að vera feit og hversvegna ekki bara að byrja að safna. 

Það besta við það að vera feitur er að maður getur kennt fitunni um ALLT! Lélegt sjálfstraust? Það er bara afþví ég er feit. Lélegt þol? Feit. Nenni ekki á djammið? Feit. Fólk skilur mig ekki! Af því ég er feit. Enginn kærasti? Feit. 

En svo gerist það! Þegar kílóin fara að bráðna af eitt af öðru. 

Lélegt sjálfstraust? Huh.. Ekkert þol? Fokk. Nenni ekki að fara á djammið? Æj kommon. Fólk skilur mig ekki! ahhh. Enginn kærasti? Kræst... 

Dreptu mig ekki. Hvað gerist næst. Þegar ennþá fleiri kíló fara.. Ég þarf að horfast í augu við það sem býr fyrir innan allt þetta. Fyrir utan þetta feita. Og það er erfiði parturinn!

Trúið mér. Núna er ég búi að vera hveiti- og sykurlaus í 6 mánuði. 6 mánuðir eru langur tími. Á öllum þessum 6 mánuðum var erfiðasta vikan mín til þessa að klárast í gær. Að vísu var ég að hætta að reykja en það eru alveg 10 dagar síðan. Ég er búin að liggja hér í fósturstellingu að telja sjálfri mér trú um að baaara eitt PIPP er virkilega slæm hugmynd! Ég hef margsinnis upplifað slæma daga en ekkert í líkingu við sl. viku. 

Ég er búin að ætla að hætta að reykja síðan um áramótin. Ástæðan fyrir því að ég hef ekki hætt er að ég er svo hrædd við að eyðileggja árangurinn. Nú, síðast eftir að ég hætti að reykja bætti ég á mig 20 kílóum. Það tók mig langan tíma að sannfæra sjálfa mig um að það er ekki að fara að gerast.

Það er deginum ljósara að hausinn er stórkostlegt fyrirbæri. Þegar hann er forritaður til niðurrifs þá getur reynst þrautinni þyngra að forrita hann uppá nýtt. 

En ég er ansi langt komin! 

Kærar þakkir fyrir að lesa - það er svo hressandi að ausa úr heilabúinu hversu fáranlegt það kann að vera. 

Ykkar Guðdís.



sunnudagur, 15. mars 2015

Aldrei hætta að vera hálfviti

Ég er alveg rétt bráðum að verða 29 ára. Vá hvað það er fáránlegt að sjá á prenti... 29 ára...
Persónulega líður mér samt ekki deginum eldri en 28 ára. Hef alltaf verið mjög ung í anda. 

Ég er samt í alvörunni ekkert í neinni tilvistarkreppu, ég lofa. 

Og þó ég sé orðin stór stelpa ætla ég aldrei að hætta að haga mér eins og hálfviti.  

Ég man þegar ég og systir mín vorum litlar. Við vorum hálfvitar. Uppáhaldið okkar var að tala með svona barnaröddum okkar á milli þegar við vorum að leika okkur, og okkur fannst það ógeðslega fyndið. Okkur fannst líka sjúklega fyndið að gera grín að mömmu þegar hún var reið. Aðallega af því að mömmu fannst það núll fyndið. Við snerum útúr öllu sem hún sagði og hlógum svo eins og hálfvitar. Við lágum uppí mínu rúmi og kútveltums um af hlátri á meðan ég las uppúr stóru brandarabókinni og ég man ennþá uppáhalds brandarann okkar. 

Ég man þegar við vinkonurnar vorum unglingar. Við vorum hálfvitar. Einu sinni á öskudaginn klæddum við okkur upp í drag og fórum út að borða... á Sauðárkróki. Við vorum alltaf í leik í frímínútum sem snerist út á það að kýla hvor aðra í öxlina. Við stóðum uppá hól og settum á svið bardaga í íslendingasögustíl með kómísku ívafi og það fannst okkur fyndið. Við tókum lög með frægum boyböndum, settum við það íslenskan texta og ætluðum að slá í gegn. 

Ég man þegar ég við vorum í framhaldsskóla. Við vorum hálfvitar. Við vorum alltaf í andaglasi á vistinni, agndofa yfir öllum fáránlegu svörunum við spurningum sem veltust út úr þekkingarþyrstu ungu fólki. Kveiktum (næstum því) í Nöfunum. Við djömmuðum fullt og þóttumst vera eitthvað allt annað en við héldum að við værum. Byrjuðum að reykja, djömmuðum með útlendingum, lögðumst á gangbrautir og gerðum allskonar gloríur á meðan bærinn svaf. Á Villa Nova fórum við í rasshárakeppni og horfðum á Finding Nemo og Family guy. Við gistum í hraðbanka og fórum að sofa þegar aðrir voru á leiðinni í vinnuna. 

Ég man þegar við fluttum til Reykjavíkur. Við vorum hálfvitar. Við áttum Gaukinn. Við tókum Svamp Sveinsson einu sinni með okkur á djammið og kynntum hann fyrir gestum og gangandi. Við lifðum á barnaboxum á McDonalds og söfnuðum dótinu. Ég tók þátt í útvarpsmannakeppni. Við þráðum heitast að komast á forsíðu DV. Þið röðuðuð drasli á mig á meðan ég var sofandi. Við héldum matarboð í pínulítilli íbúð og notuðum pappadiska. Við fórum í karókí. Oft. Bendover partýið. Öll búningapartýin.

Ég gæti haldið mjög endalaust áfram. 

Aldrei hætta að haga þér eins og hálfviti. 

-Guðdís











laugardagur, 7. mars 2015

Einhverskonar undirbúningur

Er ekki erfitt að hætta að borða sykur?
Er þetta ekki dýrt?
Hvert er markmiðið þitt?
Ætlarðu aldrei að borða sykur aftur?

Já kids. Í þessarri færslu ætla ég að svara nokkrum algengum spurningum sem ég er farin að fá nánast daglega ásamt því að tala aðeins um undirbúning:)

Er ekki erfitt að hætta að borða sykur?

Ó jú! Það er erfitt að hætta að borða sykur. Ég hef alveg tekið svona sykurpásur áður, nema það endist oftast ekki nema út vikuna. Í þetta skipti gerði ég þetta öðruvísi. Ég var búin að ákveða þetta mánuðum áður en ég hætti. Ég tók nokkurn tíma í að undirbúa hausinn á mér. Ég fór yfir það hvað þetta verður erfitt. Ég fór yfir það hvað ég má borða. Ég undirbjó sjálfa mig undir fall. Ég undirbjó sjálfa mig undir vigtarstopp. Ég tók ákvörðun um að gera þetta fyrir allra augum. En ég hélt ekki af stað fyrr en ég var nákvæmlega og algjörlega 100% tilbúin. Ég var vel búin undir það að vera mannleg, gera mistök og læra af reynslunni.
Ég myndi segja að það hafi tekið mig svona ca mánuð til tvo að læra á þennan nýja lífsstíl. Búðarferðir tóku heila eilífð þar sem ég þurfti að lesa á ALLT sem ég keypti. Fyrst um sinn mátti ekkert sem hét sykur eða hvítt hveiti vera í 5 metra radíus við mig. Ég hef vissulega slappað aðeins af og læt ekki lífið ef ég borða óvart eitt hrökkbrauð sem inniheldur snefil af hvítu hveiti. En ég held að allir hafi gott af því að taka nokkrar vikur í svona sykur og hveitipásu ekki nema bara til að læra hvað þú ert að setja ofan í þig. Það er nefnilega sykur í ótrúlegustu hlutum.

Er þetta ekki dýrt?

Til að byrja með. Já. Ímyndaðu þér að þú sért að flytja í nýja íbúð og tekur engan mat með þér. Ekki örðu og þú þarft að kaupa allt. Þú þarft að kaupa hveiti, sykur, lyftiduft, kakó, smjör, sósulit, niðursuðuvörur, salt, krydd, pasta, hrísgrjón, allar pakkavörur, allt í ísskápinn og frystinn. Þegar þú ert að byrja uppá nýtt, þá er það dýrt :)  En eftir þessar fyrstu innkaupaferðir þá er þetta bara nákvæmlega eins ef ekki ódýrara þar sem ég er hætt að kaupa skyndibitamat og nammi í óhófi.
Ég hef lært að láta ávexti og grænmeti ekki skemmast eins og eflaust flestir kannast við og það er líka mikill sparnaður í því að borða það sem maður á til :)

Hvert er markmiðið þitt?

Markmiðin mín eru frekar skýr, en samt ekki. Ég er búin að setja mér fyrsta markmið og lokamarkmið. Fyrsta markmiðið er að missa 27 kíló fyrir 20. maí nk. Þar á ég 11 stk eftir. Lokamarkmiðið er síðan að missa 57 kíló í heildina en ég hef ekki sett neinn tímaramma á það.
Þetta kemur allt saman með kalda vatninu. Og þó ég geti stundum verið frekar óþolinmóð þá er ég að sama skapi ekkert að stressa mig :)

Ætlarðu aldrei að borða sykur aftur?

Ég bara hef ekki hugmynd um það. Eins og er þá er tek ég bara einn dag í einu. Miðað við hvernig mér líður eftir að ég hætti þá er ég ekkert svo viss um það. En aftur á móti getur svo vel verið að ég gúffi í mig marengstertu einhverntímann í framtíðinni. Hver veit! :)

Þar hafið þið það. En nú að undirbúning. Hvað er svona merkilegt og mikilvægt við undirbúning.
Ég skal segja ykkur það. Það er ódýrara, það hjálpar þér að passa uppá að borða nóg og vel sem veldur því að maður fer síður í gúffmode eins og ég kýs að kalla það. (Þegar maður er orðinn of svangur og étur allt í sjónmáli).

Þennan mánuðinn tók ég undibúninginn á næsta level. Ég er búin að elda, baka og undirbúa fyrir næstu vikur sem þýðir að ég þarf nánast aldrei að elda.

Það sem ég eldaði:

2 pokar af frosnum úrbeinuðum kjúklingalærum - steikt í ofni.
2 pk nautahakk sem enduðu í 9 hamborgurum og nokkrum gúrmé kjötbollum.
2 stórar sætar kartöflur í bitum sem eru skammtaðar í poka/box til að hafa með kjúlla eða börger.
Poki af gulrótum. Brytjaðar, soðnar og kældar.
Sukkrin brauðmix með sólkjarnafræjum og graskersfræjum skipt í þrennt. (Einn hleifur með rúsínum, einn venjulegur hleifur og nokkur hamborgarabrauð.
Bananabrauð
Pizzabotnar úr hveitikími.

Svo á ég eftir að gera linsubaunasúpu, baunasalat og meira af grænmeti :)

Þessu skipti ég svo öllu í poka/box og set í frysti/kæli.

Hér er hið fræga brauðmix sem ég kaupi í Nettó



Þetta er mesta snilld í heimi. Sjúklega einfalt að baka og þú getur gert allt við þetta. Eins og ég tók fram hér að ofan gerði ég 3 mismunandi tegundir úr einum svona poka. Einn hleifur var óbreyttur. Einn hleifur var með viðbættum rúsínum og afgangsdegið fór svo í nokkur hamborgarabrauð.

Pizzabotninn sem ég gerði er sá sami og hér: http://tilraunastofan.blogspot.com/2014/11/nyji-ekki-megrunarkurinn.html

Hér er svo uppskrift af bananabrauðinu:

2 egg
1,5 dl AB mjólk
2 msk hunang
2 stappaðir bananar
50 gr brætt smjörlíki (má auðvitað skipta út fyrir kókosolíu)
2 tsk kanill
1,5 tsk negull
1,5 tsk matarsódi
2 dl now pea prótein
2 bollar haframjöl

Öllu blandað saman og hellt í formkökuform.
Bakað við 175°C í ca 50-60 mín.
Brauðir er frekar þétt svo það er gott að stinga á til að vera viss um að það sé fullbakað þegar þú tekur það út. Mitt varð frekar dökkt, en sjúklega gott!

 

Ég vona að þið hafið gaman að lestrinum.

Takk fyrir að fylgjast með!

-Guðdís

sunnudagur, 1. mars 2015

Ein ég sit og blogga

Sunnudagar eru uppáhaldsdagarnir mínir.

Sunnudögum finnst mér best að eyða ein með sjálfri mér. Þeir eru miklvægir þannig. Bara ég og klikkaði hausinn minn að gera venjulega hluti með engum. Og það finnst mér gott.

Á sunnudögum geri ég upp vikuna. Á sunnudögum tek ég til í herberginu mínu. Geng frá öllum fötunum sem ég hef hent útum gólf og loft alla vikuna. Ég hendi eyrnapinnahrúgunni á kommóðunni minni, geng frá vatnsglösunum, tómu pepsi max flöskunum og kaffibollunum sem finnast á víð og dreif um íbúðina. Ég skipulegg nestismál komandi viku og eyði deginum vanalega í eldhúsinu með dr. phil. Og síðast en ekki síst þá eru mælingar á sunnudögum. Ég vigta mig og mæli hven einasta fersentímeter líkamans með málbandi.

Þó svo megnið af sunnudeginum fari í það að hlusta á dr.phil þætti (já. því ég er alltaf að gera eitthvað annað líka) þá fer kvöldið yfirleitt í að horfa á eitthvað sem veitir mér innblástur. Það sem er alveg 100% uppáhalds eru fyrir og eftir myndir. Ég er mögulega búin að sjá hvert einasta fyrir og eftir video sem finnst á youtube. Á meðan ímynda ég mér stundum hvernig ég myndi líta út í kjörþynd. Andlitið, hendurnar, rassinn.. Allt einhvern veginn allt öðruvísi.

Síðustu dagar hafa verið mjög skrítnir. Mér finnst árangurinn minn súrrealískur og absúrd. Mér finnst skrítið að hugsa til þess að ég hafi verið 16 kílóum þyngri en ég er núna. Mér finnst skrítið að hugsa til þess að ég er 16 kílóum léttari en ég var fyrir 5 mánuðum.

Mér fannst skrítið að fara á dropboxið mitt og finna hálfs árs gamlar myndir og sjá muninn, fá sjokkið. Svona gleðisjokk. Þetta er í alvörunni að gerast! Ég er bara í alvörunni loksins að gera þetta fyrir alvöru! Ég verð bráðum fyrir og eftir mynd!

Ég verð bráðum fyrir og eftir mynd... og ég fæ tár í augun. Mig hefur alltaf dreymt um að vera fyrir og eftirmynd. :)

Það er svo gott að finna hvað allir hafa mikla trú á mér. Og loksins hef ég óbilandi trú á sjálfri mér! #igotthis

Og í tilefni þess ætla ég að henda inn fyrir og eftir mynd.


Það eru ca 4 mánuðir á milli þessara mynda. Sú fyrri er tekin í byrjun Nóvember en sú seinni á föstudaginn sl. VEI!


Uppskrift dagsins er svo að uppáhalds millimálinu mínu og reyndar í miklu uppáhaldi hjá vinnufélugunum líka .

Einfaldasta sem er til!

Í jöfnum hlutföllum blandið saman:

Ristuðum möndlum (Ég rista þær sjálf)
Ristuðum kasjúhnetum (Ég rista þær sjálf)
Rúsínum
Ristuðum kókosflögum


Og Gjössovel:


Hristu þetta svo bara saman og hámaðu í þig!

Takk fyrir að lesa.

-Guðdís