Ég ætla að byrja á því að vara við því að orðið FEIT kemur ansi oft fyrir í þessum texta. Því ég nenni ekki að nota orð eins og yfirvigt, ofþyngd, stórbeinótt eða samskonar feimnisorð. Ekki nema þá alveg spari. Hver veit nema þið sjáið einhvern fjölbreytileika í lýsingarorðunum.
Ekkert plat. Allir gallar, allt sem þér finnst óþæginlegt við að vera þú. Allt sem þér finnst óþolandi við að vera þú. Allt sem þú elskar við að vera þú og allt sem þér finnst skemmtilegt við að vera þú. Útlitið, sjarmurinn, húmorinn, skapskrímslið, frekjan og allt saman.
Ég var búin að tala um það í einhverri færslu að aukafita er fyrir marga sem hana bera í óhófi ákveðið öryggi. Svona bómullarpakkning.
Mig langar aðeins að útskýra það frá mínu sjónarhorni.
Ég hef verið feit frá því ca. ég man eftir mér. Ætli ég hafi ekki verið um 8 ára þegar ég man eftir því að hafa tekið eftir því/heyrt í fyrsta skipti að ég væri feit. Eða þið vitið... svona stærri en meðal barn er. Ég var nefnilega ekkert mikið feit. Ég var með svona hvolpafitu.
Á hverju einasta ári kveið ég þessum degi. Daginum sem ég þurfti að fara til skólahjúkrunarfræðings. Ég tók sjónpróf, var spurð einhverra spurninga, við mælum hæðina og ýmislegt fleira. En svo var það vigtin. Svo var það helvítis fokkings vigtin.
Alltaf var ég fyrir ofan normið á kúrvunni og alltaf talaði hjúkrunarfræðingurinn um það við mig á einhvern hátt sem maður á ekki að tala við barn um kílóatölu. Hún sýndi mér að ég var fyrir ofan normið, til að passa uppá að ég vissi nú alveg að ég var ekki venjuleg. Svona var þetta á hverju einasta ári. Á hverju ári bætti ég á mig einhverjum hvolpakílóum en ekkert hættulegt. Ég var chubby barn. Svo var ég chubby unglingur. Ég var ca 12-13 ára þegar skólahjúkrunarfræðingurinn gubbaði því úr sér eftir gott "fituspjall" við mig að ég yrði nú sennilega aldrei grönn. OG BAMM! Scarred for life! Það er nefnilega ekki erfitt að skemma hausinn á ungri konu.
Uppúr þessu byrjaði ég að fitna fyrir alvöru og eineltið varð í kjölfarið svolítið alvöru líka. Reglulega fékk ég að heyra að ég var feit. Reglulega fékk ég að heyra að ég var ekki nógu góð á einhvern hátt. Ég fór í fyrstu megrunina mína 12 ára. Efnaskiptakúr landspítalans. Það var gúd sjitt. Borðaði ekkert í 2 vikur. En þið sjáið að frá því ég var unglingur var það stimplað inní hausinn á mér að ég er feit og verð aldrei mjó og þá er maður ekki venjuleg manneskja - heldur feit manneskja.
Svo fór ég í megrun og bætti því öllu á mig aftur. Og svo fór ég aftur í megrun og sama sagan again og svo fór ég enn einu sinni í mergrun og voila - öll kílóin komin aftur. Það mesta sem ég náði að skafa af mér í einni af mínu frægu megrunum voru 9 kíló. Svona gekk þetta í rúmlega 10 ár. Þangað til ég ákvað að sætta mig bara við þetta. Ég gafst hvorteðer alltaf upp. Kannski langaði mig heldur ekkert að vera grönn.
Hún hafði líklega rétt fyrir sér kerlingin. Ég verð aldrei mjó. Best að vera þá bara ánægð eins og ég er. Og upphófst heljarinnar verkefni.
Það fyrsta sem ég gerði var að finna allskonar "body positive" fólk og hópa á samfélagsmiðlum. Og newsfeedið mitt fylltist af fólki sem var feitt og fabulous. Þarna voru model í stærðum 20 og uppúr sem rokkuðu hátísku og voru talskonur fyrir feitt fólk. Þarna voru líka allskonar síður sem einbeittu sér að mannréttindum og það að fólk megi bara vera eins og því fokkings sýnist án þes s að þurfa að fá á því leyfi frá tískublöðum. Þetta var ágætis heilaþvottur skal ég segja ykkur :)
Það næsta sem ég gerði var að blása út. Ég fitnaði og fitnaði og fitnaði. Á tveimur árum bætti ég á mig 20 kílóum. Og ég bara leyfði því að gerast. Án þess að veita því gaum. Nú, ég á hvorteðer alltaf eftir að vera feit og hversvegna ekki bara að byrja að safna.
Það besta við það að vera feitur er að maður getur kennt fitunni um ALLT! Lélegt sjálfstraust? Það er bara afþví ég er feit. Lélegt þol? Feit. Nenni ekki á djammið? Feit. Fólk skilur mig ekki! Af því ég er feit. Enginn kærasti? Feit.
En svo gerist það! Þegar kílóin fara að bráðna af eitt af öðru.
Lélegt sjálfstraust? Huh.. Ekkert þol? Fokk. Nenni ekki að fara á djammið? Æj kommon. Fólk skilur mig ekki! ahhh. Enginn kærasti? Kræst...
Dreptu mig ekki. Hvað gerist næst. Þegar ennþá fleiri kíló fara.. Ég þarf að horfast í augu við það sem býr fyrir innan allt þetta. Fyrir utan þetta feita. Og það er erfiði parturinn!
Trúið mér. Núna er ég búi að vera hveiti- og sykurlaus í 6 mánuði. 6 mánuðir eru langur tími. Á öllum þessum 6 mánuðum var erfiðasta vikan mín til þessa að klárast í gær. Að vísu var ég að hætta að reykja en það eru alveg 10 dagar síðan. Ég er búin að liggja hér í fósturstellingu að telja sjálfri mér trú um að baaara eitt PIPP er virkilega slæm hugmynd! Ég hef margsinnis upplifað slæma daga en ekkert í líkingu við sl. viku.
Ég er búin að ætla að hætta að reykja síðan um áramótin. Ástæðan fyrir því að ég hef ekki hætt er að ég er svo hrædd við að eyðileggja árangurinn. Nú, síðast eftir að ég hætti að reykja bætti ég á mig 20 kílóum. Það tók mig langan tíma að sannfæra sjálfa mig um að það er ekki að fara að gerast.
Það er deginum ljósara að hausinn er stórkostlegt fyrirbæri. Þegar hann er forritaður til niðurrifs þá getur reynst þrautinni þyngra að forrita hann uppá nýtt.
En ég er ansi langt komin!
Kærar þakkir fyrir að lesa - það er svo hressandi að ausa úr heilabúinu hversu fáranlegt það kann að vera.
Ykkar Guðdís.