laugardagur, 7. mars 2015

Einhverskonar undirbúningur

Er ekki erfitt að hætta að borða sykur?
Er þetta ekki dýrt?
Hvert er markmiðið þitt?
Ætlarðu aldrei að borða sykur aftur?

Já kids. Í þessarri færslu ætla ég að svara nokkrum algengum spurningum sem ég er farin að fá nánast daglega ásamt því að tala aðeins um undirbúning:)

Er ekki erfitt að hætta að borða sykur?

Ó jú! Það er erfitt að hætta að borða sykur. Ég hef alveg tekið svona sykurpásur áður, nema það endist oftast ekki nema út vikuna. Í þetta skipti gerði ég þetta öðruvísi. Ég var búin að ákveða þetta mánuðum áður en ég hætti. Ég tók nokkurn tíma í að undirbúa hausinn á mér. Ég fór yfir það hvað þetta verður erfitt. Ég fór yfir það hvað ég má borða. Ég undirbjó sjálfa mig undir fall. Ég undirbjó sjálfa mig undir vigtarstopp. Ég tók ákvörðun um að gera þetta fyrir allra augum. En ég hélt ekki af stað fyrr en ég var nákvæmlega og algjörlega 100% tilbúin. Ég var vel búin undir það að vera mannleg, gera mistök og læra af reynslunni.
Ég myndi segja að það hafi tekið mig svona ca mánuð til tvo að læra á þennan nýja lífsstíl. Búðarferðir tóku heila eilífð þar sem ég þurfti að lesa á ALLT sem ég keypti. Fyrst um sinn mátti ekkert sem hét sykur eða hvítt hveiti vera í 5 metra radíus við mig. Ég hef vissulega slappað aðeins af og læt ekki lífið ef ég borða óvart eitt hrökkbrauð sem inniheldur snefil af hvítu hveiti. En ég held að allir hafi gott af því að taka nokkrar vikur í svona sykur og hveitipásu ekki nema bara til að læra hvað þú ert að setja ofan í þig. Það er nefnilega sykur í ótrúlegustu hlutum.

Er þetta ekki dýrt?

Til að byrja með. Já. Ímyndaðu þér að þú sért að flytja í nýja íbúð og tekur engan mat með þér. Ekki örðu og þú þarft að kaupa allt. Þú þarft að kaupa hveiti, sykur, lyftiduft, kakó, smjör, sósulit, niðursuðuvörur, salt, krydd, pasta, hrísgrjón, allar pakkavörur, allt í ísskápinn og frystinn. Þegar þú ert að byrja uppá nýtt, þá er það dýrt :)  En eftir þessar fyrstu innkaupaferðir þá er þetta bara nákvæmlega eins ef ekki ódýrara þar sem ég er hætt að kaupa skyndibitamat og nammi í óhófi.
Ég hef lært að láta ávexti og grænmeti ekki skemmast eins og eflaust flestir kannast við og það er líka mikill sparnaður í því að borða það sem maður á til :)

Hvert er markmiðið þitt?

Markmiðin mín eru frekar skýr, en samt ekki. Ég er búin að setja mér fyrsta markmið og lokamarkmið. Fyrsta markmiðið er að missa 27 kíló fyrir 20. maí nk. Þar á ég 11 stk eftir. Lokamarkmiðið er síðan að missa 57 kíló í heildina en ég hef ekki sett neinn tímaramma á það.
Þetta kemur allt saman með kalda vatninu. Og þó ég geti stundum verið frekar óþolinmóð þá er ég að sama skapi ekkert að stressa mig :)

Ætlarðu aldrei að borða sykur aftur?

Ég bara hef ekki hugmynd um það. Eins og er þá er tek ég bara einn dag í einu. Miðað við hvernig mér líður eftir að ég hætti þá er ég ekkert svo viss um það. En aftur á móti getur svo vel verið að ég gúffi í mig marengstertu einhverntímann í framtíðinni. Hver veit! :)

Þar hafið þið það. En nú að undirbúning. Hvað er svona merkilegt og mikilvægt við undirbúning.
Ég skal segja ykkur það. Það er ódýrara, það hjálpar þér að passa uppá að borða nóg og vel sem veldur því að maður fer síður í gúffmode eins og ég kýs að kalla það. (Þegar maður er orðinn of svangur og étur allt í sjónmáli).

Þennan mánuðinn tók ég undibúninginn á næsta level. Ég er búin að elda, baka og undirbúa fyrir næstu vikur sem þýðir að ég þarf nánast aldrei að elda.

Það sem ég eldaði:

2 pokar af frosnum úrbeinuðum kjúklingalærum - steikt í ofni.
2 pk nautahakk sem enduðu í 9 hamborgurum og nokkrum gúrmé kjötbollum.
2 stórar sætar kartöflur í bitum sem eru skammtaðar í poka/box til að hafa með kjúlla eða börger.
Poki af gulrótum. Brytjaðar, soðnar og kældar.
Sukkrin brauðmix með sólkjarnafræjum og graskersfræjum skipt í þrennt. (Einn hleifur með rúsínum, einn venjulegur hleifur og nokkur hamborgarabrauð.
Bananabrauð
Pizzabotnar úr hveitikími.

Svo á ég eftir að gera linsubaunasúpu, baunasalat og meira af grænmeti :)

Þessu skipti ég svo öllu í poka/box og set í frysti/kæli.

Hér er hið fræga brauðmix sem ég kaupi í Nettó



Þetta er mesta snilld í heimi. Sjúklega einfalt að baka og þú getur gert allt við þetta. Eins og ég tók fram hér að ofan gerði ég 3 mismunandi tegundir úr einum svona poka. Einn hleifur var óbreyttur. Einn hleifur var með viðbættum rúsínum og afgangsdegið fór svo í nokkur hamborgarabrauð.

Pizzabotninn sem ég gerði er sá sami og hér: http://tilraunastofan.blogspot.com/2014/11/nyji-ekki-megrunarkurinn.html

Hér er svo uppskrift af bananabrauðinu:

2 egg
1,5 dl AB mjólk
2 msk hunang
2 stappaðir bananar
50 gr brætt smjörlíki (má auðvitað skipta út fyrir kókosolíu)
2 tsk kanill
1,5 tsk negull
1,5 tsk matarsódi
2 dl now pea prótein
2 bollar haframjöl

Öllu blandað saman og hellt í formkökuform.
Bakað við 175°C í ca 50-60 mín.
Brauðir er frekar þétt svo það er gott að stinga á til að vera viss um að það sé fullbakað þegar þú tekur það út. Mitt varð frekar dökkt, en sjúklega gott!

 

Ég vona að þið hafið gaman að lestrinum.

Takk fyrir að fylgjast með!

-Guðdís

Engin ummæli:

Skrifa ummæli