Ég er alveg rétt bráðum að verða 29 ára. Vá hvað það er fáránlegt að sjá á prenti... 29 ára...
Persónulega líður mér samt ekki deginum eldri en 28 ára. Hef alltaf verið mjög ung í anda.
Ég er samt í alvörunni ekkert í neinni tilvistarkreppu, ég lofa.
Og þó ég sé orðin stór stelpa ætla ég aldrei að hætta að haga mér eins og hálfviti.
Ég man þegar ég og systir mín vorum litlar. Við vorum hálfvitar. Uppáhaldið okkar var að tala með svona barnaröddum okkar á milli þegar við vorum að leika okkur, og okkur fannst það ógeðslega fyndið. Okkur fannst líka sjúklega fyndið að gera grín að mömmu þegar hún var reið. Aðallega af því að mömmu fannst það núll fyndið. Við snerum útúr öllu sem hún sagði og hlógum svo eins og hálfvitar. Við lágum uppí mínu rúmi og kútveltums um af hlátri á meðan ég las uppúr stóru brandarabókinni og ég man ennþá uppáhalds brandarann okkar.
Ég man þegar við vinkonurnar vorum unglingar. Við vorum hálfvitar. Einu sinni á öskudaginn klæddum við okkur upp í drag og fórum út að borða... á Sauðárkróki. Við vorum alltaf í leik í frímínútum sem snerist út á það að kýla hvor aðra í öxlina. Við stóðum uppá hól og settum á svið bardaga í íslendingasögustíl með kómísku ívafi og það fannst okkur fyndið. Við tókum lög með frægum boyböndum, settum við það íslenskan texta og ætluðum að slá í gegn.
Ég man þegar ég við vorum í framhaldsskóla. Við vorum hálfvitar. Við vorum alltaf í andaglasi á vistinni, agndofa yfir öllum fáránlegu svörunum við spurningum sem veltust út úr þekkingarþyrstu ungu fólki. Kveiktum (næstum því) í Nöfunum. Við djömmuðum fullt og þóttumst vera eitthvað allt annað en við héldum að við værum. Byrjuðum að reykja, djömmuðum með útlendingum, lögðumst á gangbrautir og gerðum allskonar gloríur á meðan bærinn svaf. Á Villa Nova fórum við í rasshárakeppni og horfðum á Finding Nemo og Family guy. Við gistum í hraðbanka og fórum að sofa þegar aðrir voru á leiðinni í vinnuna.
Ég man þegar við fluttum til Reykjavíkur. Við vorum hálfvitar. Við áttum Gaukinn. Við tókum Svamp Sveinsson einu sinni með okkur á djammið og kynntum hann fyrir gestum og gangandi. Við lifðum á barnaboxum á McDonalds og söfnuðum dótinu. Ég tók þátt í útvarpsmannakeppni. Við þráðum heitast að komast á forsíðu DV. Þið röðuðuð drasli á mig á meðan ég var sofandi. Við héldum matarboð í pínulítilli íbúð og notuðum pappadiska. Við fórum í karókí. Oft. Bendover partýið. Öll búningapartýin.
Ég gæti haldið mjög endalaust áfram.
Aldrei hætta að haga þér eins og hálfviti.
-Guðdís
Engin ummæli:
Skrifa ummæli