Þegar maður er ungur er það að vera asnalegur það pínlegasta sem getur komið fyrir mann.
Að gera eitthvað skrítið, finnast eitthvað frábært sem öðrum finnst ekki, detta á hausinn fyrir framan fullt af fólki eða segja brandara sem engum finnst fyndinn.
Eftir slíkt atvik er líklegt að maður sé skemmdur fyrir lífstíð. Eða allavega á þeirri stundu.
Lífið verður aldrei samt aftur og fólk mun aldrei gleyma því sem maður sagði eða gerði.
En í sannleika sagt er það sjaldnast raunin. Því það eru nefnilega allir svo uppteknir af sjálfum sér sínum eigin asnaleika.
Ég hef oft verið mjög asnaleg og í gegnum tíðina hef ég komist uppá lag með það að gera grín af sjálfri mér og hvað ég er asnaleg. Ég gerði mikið af því að detta og slasa mig, sulla yfir mig og gera allskonar sem auðvelt er að nota sem vopn gegn manni, en maður lærir fljótt að hlæja með og bráðum hætta asnalegu mómentin að vera samfélagsleg morð og allir eru fljótir að gleyma.
Þar sem ég er mögulega heimsmeistari í því að vera asnaleg, er ég ótrúlega flink að forðast aðstæður það sem ég gæti mögulega átt það á hættu að vera asnaleg. Eins og t.d. að taka þátt í einhverju sem maður kann ekki. Forðast aðstæður sem maður veit að kalla fram kvíða eða stress eða sitja bara stöðugt á hliðarlínunni og fylgjast með öðrum vera asnalegir og þau skemmta sér konunglega við það. Það hefur kostað mig allskonar og mikið getur það meitt. Mig langar að eiga einn dag, þar sem ég er algjörlega og gjörsamlega óhrædd við að taka áhættur.
Stundum er ég ótrúlega hugrökk og stekk útfyrir þægindarammann með bros á vör og án þess að blikna. Þó kemur fyrir að það sem stendur fyrir utan er mun ógnvænlegra en gert var ráð fyrir og þá stekk ég aftur inn. Öðrum stundum ligg ég bara í fósturstellingunni, akkúrat í miðjunni og passa uppá að enginn komist inn til mín.
Ég er líka oft á tíðum sannfærð um að ég sé í raun 2 persónuleikar. Þessi opna, lífsglaða og jákvæða kona sem elskar fólk og finnst allir skemmtilegir. En hin hliðin á mér þarf mikinn tíma fyrir sjálfa sig og vil ekki hitta sálu þegar illa liggur á. Það fer mér nefnilega ekki vel að vera illa upp lögð og að er hlið sem ég vil ekkert að allir þekki. Brosvöðvarnir hætta bara að virka og þá kem ég hlutunum ekki frá mér á þann hátt sem ég vil því tjáningarstöðvarnar eiga það líka til að snarstöðvast og jafnvel vinna afturábak í þessu ástandi.
Mér finnst ég nefnilega asnalegust þegar ég er ekki glöð. Mér finnst asnalegt að vera í fýlu. Mér finnst asnalegt að vera pirruð og mér finnst asnalegt að vera lítil í mér með komplexa. Ég er svo hrædd um að þegar fólk uppgötvar það að ég er í raun mjög asnaleg, þá vilji það ekkert með mig hafa lengur og sópi mér burt.
Og þegar einhver spurði: "Er ekki allt í lagi"? Þá sagði hún: "Jú", og brosti sínu blíðasta en gat ekki beðið eftir því að fara heim í fýlu.
Því satt best að segja, ef hún hefði svarað neitandi, þá hefði hún líklegast ekki getað haldið tárunum inni. Svo ponsulítil var hún þann daginn.
En ég vil vera stór og sterk alla daga. Ég vil vera glöð og elskuleg alla daga og ég vil skemmta mér alla daga. Því mér finnst lífið best þannig.
Ég veit alveg að það er ekki þannig og stundum þarf maður bara að fá að vera í fýlu, en markmiðið er auðvitað að fýludagarnir séu sem fæstir. Þeir hafa líklegast náð sögulegu lágmarki undanfarna mánuði :)
Ég er kannski að dramatísera þetta svolítið, en þið vitið hvernig þetta er þegar maður er lítill í sér. Þá verður lífið svolítið dramatískara. Mitt er alveg korter í spænska sápuóperu á góðum degi og ég er með bráðaofnæmi fyrir drama - dios mio!
In conclusion: Það eru allir asnalegir. Það fara allir í fýlu. En það er miklu betra að vera glaður. Stökkva útí djúpu laugina stundum (mögulega með handakúta til að byrja með).
Ég ætla að æfa mig í að stíga oftar og aðeins lengra út fyrir þægindarammann.
#gottmeðmig
#hættífýlu
#igotthis
Takk fyrir að lesa!
Ykkar,
Guðdís
Engin ummæli:
Skrifa ummæli