fimmtudagur, 25. júní 2015

N E N N I S

Síðustu dagar hafa verið ansi spennandi fyrir þessa hér.

Ég tók loksins ákvörðun um að henda tilraunastofunni út í heiminn og ég er ekki frá því að það hafi verið frábær ákvörðun. Í kjölfarið keypti ég síðan lén og ætla að henda í vefsíðu. Þannig að von bráðar mun bloggið færast inná tilraunastofan.is!

Ég er ótrúlega snortin yfir viðbrögðunum og skilaboðunum sem ég hef fengið. Ég er ekki alveg að ná utan um þetta og finnst þetta eiginlega svolítið súrrealískt. En vá hvað mér þykir vænt um þetta!

Þetta blogg er það allra stærsta verkefni sem ég hef tekið að mér og ég á því mikið að þakka.

Fyrir sirka 2 mánuðum fékk ég hugmynd að vefsíðu. Ég var búin að smíða hana í hausum á mér, búa til allskonar flokka og viðfangsefni og ég ætlaði að setja allan heiminn inná þessa vefsíðu. Fljótlega fór mér þó að finnast hugmyndin heldur stór svo ég eiginlega hætti við. Ekki í fyrsta skipti sem þetta gerist skal ég segja þér, þ.e.a.s. að ég fæ klikkaða hugmynd og bugast áður en framkvæmdirnar byrja.

Þannig hefur það verið nánast allt mitt líf, það þekkja mín nánustu.

Þess vegna varð ég ekki hissa á viðbrögðunum sem ég fékk þegar ég ákvað að breyta um lífsstíl fyrir allra augum. Ég sá í augum vinkvennana glitta í vott af efasemdum þegar tilkynningaglaða ég sagði frá áformunum, að ég ætlaði að blogga mig mjóa. En það sem þær vissu ekki var að í þetta skipti var ég búin að sjá við sjálfri mér. Ég vissi að ég myndi bugast og ég gerði ráð fyrir því! Ég vissi að ég myndi falla og ég gerði ráð fyrir því! Ég vissi að það myndi koma tími sem ég myndi ekki geta meira og ég gerði ráð fyrir því! Og hvað gerist? Hér er ég, 20 kílóum léttari að búa til vefsíðu sem ég var búin að dauðadæma korteri eftir að ég fékk hugmyndina.

Þetta sýnir, elskurnar mínar að það er alltaf svigrúm fyrir breytingar. Og þó svo að enginn annar hafi trú á þér, þá dugar að þú hafir trú á sjálfri/sjálfum þér!

Stundum er maður ekki alveg með nennið í rassvasanum og það getur reynst dýrkeypt þegar mataræðið krefst pælinga.

Þess vegna langar mig að deila með ykkur "uppskrift" af minipítsum sem ég hef hent í á sparidögum eða ef ég nenni bara alls ekki að elda :)

Þetta er allt sem þú þarf:

Maískökur - svona einsog rískökurnar, nema bara maís.
Pítsasósu  - ég geri mína sjálf úr salsasósu og pítsakryddi, þessi tilbúna er nefnilega með sykri í.
Álegg - það sem þér finnst best á pítsu!
Ostur - Ég nota yfirleitt bara Mozzarella en í þetta skiptið varð venjulegur brauðostur fyrir valinu :)

Ég geri ráð fyrir því að þið séuð fullfær um að búa ykkur til pítsu en til öryggis:

  
Fyst maískaka - svo pítsasósa - síðan álegg - og síðast en alls ekki síst OSTUR!



Ég skelli þessu svo bara í ofninn á 180°C í ca 10 mín eða þar til osturinn er nákvæmlega eins og ég vil hafa hann :)



Svo er undirrituð náttúrulega kokteilsósusjúklingur, svo ég toppaði pítsurnar með smá léttri kokteilsósu en hún samanstendur af sýrðum rjóma og restinni af pítsasósunni sem ég bjó til.

Takk fyrir að lesa og verði ykkur að góðu!

Ykkar,
Guðdís


Engin ummæli:

Skrifa ummæli