Kannist þið ekki við svona augnablik í lífinu, þegar þið heyrið eitthvað, lesið eitthvað eða sjáið eitthvað og það klikkar eitthvað í hausnum á ykkur?
Svona eins og þið séuð að uppgötva eitthvað sem mun breyta lífi ykkar?
Mikilvægar lexíur sem þið haldið alltaf í og reynið að minna ykkur á, á hverjum degi - tja, eða allavega þegar það skiptir máli :)
Ég tók saman lista yfir það sem hefur haft hvað mest áhrif á mig og ég reyni að minna mig á, á hverjum einasta degi.
Einhvern tímann sagði vinkona mín við mig að ég væri dýrmæt. Það er það fallegasta sem nokkur hefur sagt við mig. Ég var í mikilli sjálfsvinnu á þeim tíma og þurfti að grafa upp allskonar djöfla sem ég kærði mig ekki um. En þessi orð: "Þú ert svo dýrmæt" höfðu djúpstæð áhrif á mig og ég er sífellt að minna sjálfa mig á hvað ég er í raun dýrmæt.
Ég bað um hjálp, og ég dó ekki. Ef þú ert í aðstæðum sem þú ræður ekki við, þá verður þú að biðja um hjálp. Ég var búin að reyna í mörg ár að vera stór og sterk og gerði lítið úr því sem ég hafði gengið í gegnum. Svo hætti það að virka og í örvæntingu neyddist ég til að leita hjálpar. Það er það besta sem ég hef gert. Og ég þakka fyrir það á hverjum degi hvað ég á frábært fólk í kringum mig.
Að lifa í núinu. Þetta er eitt af því sem ég er ennþá að rembast við, en þegar ég næ að minna mig á að njóta bara þess sem er að gerast akkúrat núna, án þess að hafa áhyggjur af fortíð eða framtíð, þá líður mér best. Þegar hausinn á mér er komin í 6000 snúninga og ég sé varla fram fyrir mig fyrir rembing, þá er svo gott að stoppa, fylgjast með andardrættinum, grandskoða umhverfið, bara anda og njóta. Ég mæli með því fyrir þá sem eiga erfitt með að sortera hugsanir að kynna sér núvitund.
http://www.pressan.is/pressupennar/Lesa_Ingrid_Kuhlman/nokkur-atridi-sem-thu-vissir-ekki-um-nuvitund
Igrid Kuhlman er frábær og eitt af mínum markmiðum er að komast á námskeið hjá henni.
Hérna er líka vídjó sem opnaði augun mín og gaf mér einhvern skilning á núvitund sem ég hafði ekki áður: https://www.youtube.com/watch?v=01Pfs3VuizM - gefið þessum gæja tækifæri :)
Þú ert aldrei of gamall til að læra. Ég var tvítug þegar ég byrjaði að mála. Ég var 22 þegar ég byrjaði að teikna aftur. Ég var 25 ára þegar ég keypti mér ukulele og lærði að spila á það og ég var 28 ára þegar ég byrjaði að sauma á mig föt Ég á ennþá efti að verða fræg söngkona, læra tölvunarfræði og vera fyrirlesari. Ég veit að ég er ung en margir virðast halda sig við einhverja "best fyrir" dagsetningu. Hvort sem það sé að fara í skóla, semja lag, búa til bíómynd eða ferðast um heiminn. Þú ert aldrei of gamall. Hvort sem þú ert 20, 30, 40 eða 50 ára! Ég ætla að halda áfram að læra þar til ég dey.
Þakklæti! Vertu þakklátur fyrir það sem þú átt. Ég veit að ég get stundum verið óþolandi Pollýanna - en það er líklega það sem heldur geðheilsunni í lagi. Það tekur tíma og æfingu að læra að fókusa á það góða í hverjum aðstæðum, já og í lífinu yfir höfuð en það er ótrúlega mikilvægt. Þá hættir maður líka að vera alltaf í fýlu og verður bara alltaf glaður í staðinn. Það er miklu skemmtilegra.
Þú ert skapari lífs þíns. Hvort sem þú vilt trúa því eða ekki. Þú hefur alltaf val. Alltaf! Ef þú ert staddur í aðstæðum sem þú vilt ekki vera í, farðu þá. Ef þú getur ekki farið, þá getur þú alltaf breytt hugarfarinu. Punktur.
Eigið frábæran dag og dásamlega viku.
Ekki gleyma að njóta!
Takk fyrir að lesa.
Ykkar,
Guðdís
Engin ummæli:
Skrifa ummæli