Það sem er svo skemmtilegt við það að gramsa í hausnum á sér - er að oft dettur maður niður á einhverja kóða sem eru svo ótrúlega vitlaust skrifaðir að það er ekki skrítið að þeir hafi ekki framkallað neitt gáfulegt. Þetta þarf að laga staf fyrir staf, kóða fyrir kóða.
Nýlega datt ég fram á einn slíkan.
Það er erfitt fyrir mig að tala um þetta, aðallega því ég er hrædd við að særa einhvern. Ég elska foreldra mína og veit að þau hafa alltaf og munu alltaf gera sitt allra besta til þess að mér líði vel og svo að ég fái að blómstra! Þau styðja mig í einu og öllu! Betri foreldra er ekki hægt að hugsa sér og hversu heppin er ég að eiga tvö pör. :*
En að efninu!
Einu sinni hataði ég stráka.
Ég hataði stráka vegna þess að í nokkur ár gerðu skólafélagarnir mínir í því að láta mér líða eins og ég væri lítils virði. Ég væri lítils virði vegna þess hvernig ég leit út.
Þetta voru strákar.
Allir strákarnir sem ég þekkti voru vondir.
Ég átti í raun ekki margar karlmannsfyrirmyndir sem barn.
Við pabba minn og bræður myndaðist ekki almennileg tenging fyrr en ég varð um 18. ára. Fyrir utan nokkrar heimsóknir fyrir 11 ára aldur. Ég hitti pabba minn í fyrsta skipti þegar ég var 7. ára. og eftir það fór ég nokkrum sinnum í heimsókn til þeirra, og elskaði það.
En munið það að ég var var vön að hata stráka, svo ég átti erfitt með að mynda tengsl í svo stutt og fá skipti.
Þar til ég varð 9 ára, þekkti ég bara að karlmenn fóru. Ég lærði snemma að á endanum fóru þeir og ég skipti þá í raun engu máli - að minnsta kosti ekki miklu. Svoleiðis var mín upplifun.
Unglingsárin voru svona eins og hjá flestum - skelfileg :D
Eineltið varð alltaf verra og verra með hverju árinu. Eða þar til ég fór í framhaldsskóla. Þá starstoppaði það. Ég man eftir einu atviki frá því ég var í framhaldsskóla sem situr fast í mér.
Á unglinsárunum fóru svo vinkonur mínar að verða skotnar útum allt og eignast kærasta. Þá fór ég að verða svona utangátta. Ég átti nefnilega aldrei kærasta.
Mitt hlutverk var að hlusta, leysa úr vandamálum vinkvennana og hef meira að segja gengið svo langt að vera einhvers konar milliliður í sambandsslitum. Það var áður en ég lærði að setja fólki mörk :)
Ef ég vingaðist við einhvern sem var karlkyns þá kom það yfirleitt uppá peninginn að hann var skotinn í vinkonu minni. Og sagði mér það fyrst af öllum. Ég fékk að heyra þær margar ástarjátningarnar til vinkvenna minna :)
Ég var líka skotin í strákum, ég var oft skotin. En það fékk engin að vita af því. Vegna þess að ég var alltaf svo handviss um að ég væri of ljót og leiðinleg. Ekki bara hélt það, heldur trúði því fyrir alvöru að enginn myndi líta við þessu. Ég lærði samt að fake-a smá sjálfstraust og ég gat að minnsta kosti haldið uppi samræðum við fólk og haft gaman.
Þegar ég var 16 ára eignaðist ég í fyrsta skipti strákavini. Það tók mig langan tíma að átta mig á því að þeir vildu í alvörunni vera vinir mínir og fannst ég frábær. Ég hafði eiginlega alltaf haldið að strákar væru bara vinir mínir fyrir kurteisissakir. Svona einhvern veginn tilneyddir því þeir voru skotnir í vinkonu minni eða eitthvað svoleiðis. Í mörg ár efaðist ég um eigin ágæti og hélt þetta bara áfram. Æji hann vill bara vera vinur minn því hann neyðist til þess. Og yfirleitt leið mér svolítið svona eins og aukahlut. Í flestum aðstæðum.
Hægt og rólega fór ég samt að hafa trú á því að ég væri skemmtileg og fyndin. Ég átti heima í einhverjum hóp og ég elskaði alla vini mína. Mér fannst þau frábær og þeim fannst ég frábær.
En þegar nýr strákur bættist í hópinn, þá tók yfirleitt langan tíma fyrir mig að ná að vera ég sjálf í kringum hann. Alltaf var ég viss um að hann væri vondur og leiðinlegur, og honum finnst ég pottþétt ekki skemmtileg heldur.
Til allrar blessunar, þá er þetta að eldast af mér.
Ég er orðin nokkuð viss um að ég sé fyndin og skemmtileg og ég á mjög auðvelt með að kynnast fólki af báðum kynjum og þykja vænt um það. :)
Ennþá er ég samt að berjast. Þó ég sé alveg skemmtileg, þá er ég samt örugglega ekki nógu sæt/flott/eiguleg fyrir neinn. Hvernig getur einhver elskað hana ef hún gerir það ekki sjálf. Einhvern veginn virðist spegilinn gera gallana svo risastóra svo að restin verður alveg pínu pons og ekki þess virði að gefa því nokkurn gaum. Hvernig má það vera að mörg ár af sjálfsvinnu skilji ekki meira eftir sig en þetta. Hvernig má það vera að eitthvað svo langt til baka í fortíðinni geti ennþá haft svo mikil áhrif á sálartetrið.
Ég veit að ég hef áður sagt að ef það væri til pilla við öllu, þá væri lífið ekki skemmtilegt. Þá þyrfti maður ekki að hafa fyrir neinu og kynni ekkert að meta.
En mikið vildi ég óska þess að það væri til pilla við þessu. Það væri svo frábært að vakna einn dagin, fullkomlega sátt í eigin líkama.
En fyrst ég hef lært svona margt á svona stuttum tíma, þá hlýtur þessi kafli að síast inn líka.
Ég gæti alveg þurft að lesa hann oft og milli línana, en það kemur.
Takk fyrir að lesa.
Ykkar,
Guðdís
snillingur:)
SvaraEyða